Upp­gjör, við­töl og myndir: KR - Fram 0-1 | Læri­sveinar Rúnars lögðu KR

Hinrik Wöhler skrifar
Liðin mættust á AVIS vellinum sem er að öllu jafnan heimavöllur Þróttar.
Liðin mættust á AVIS vellinum sem er að öllu jafnan heimavöllur Þróttar. vísir / anton brink

Fram vann frækinn sigur á KR á Avis-vellinum í Laugardal í Bestu deild karla í dag. Leikurinn endaði 1-0 fyrir Fram og með sigrinum jafnar liðið stigafjölda KR í deildinni en bæði lið eru með sex stig eftir þrjár umferðir í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Þetta var fyrsti heimaleikur KR á tímabilinu en þar sem grasið á Meistaravöllum er enn í vetrarbúning var gripið til þess ráðs að leika á Avis-vellinum sem er iðulega heimavöllur Þróttar.

Leikurinn byrjaði með látum en á 7. mínútu kom fyrsta og eina mark leiksins. Það var hinn átján ára gamli Freyr Sigurðsson sem kom Fram yfir og það í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Fram en Freyr kom til liðsins frá Sindra á Höfn í Hornafirði fyrir þetta tímabil.

Boltinn söng í netinuvísir / anton brink
Framarar fagnavísir / anton brink

Markið kom eftir góðan undirbúning Magnúsar Þórðarsonar en hann lék varnarmenn KR grátt og gaf lága og hnitmiðaða sendingu inn í vítateiginn sem Freyr kláraði örugglega í autt markið.

Fram gaf ekki mörg tækifæri á sér og voru þéttir fyrir í öftustu línu í fyrri hálfleik. KR-ingar náðu ekki að skapa sér mörg færi og gestirnir úr Úlfarsárdal sáu við öllum sóknum Vesturbæinga.

Gregg Ryder, þjálfari KR, gerði skiptingu í hálfleik og fleiri til í upphafi síðari hálfleiks til að hrista upp í sóknarleik liðsins. Það breytti litlu, Framarar voru afar skipulagðir og leikmenn KR náðu ekki að skapa sér almennileg marktækifæri.

KR fékk mörg föst leikatriði sem liðið náði ekki að nýta sér og var liðið ólíkt sjálfum sér, sérstaklega miðað við fyrstu tvo leikina hjá liðinu. Framarar héldu skipulaginu út allan leikinn og sigldu heim sigri á endanum.

Atvik leiksins

Fyrsta mark Freys Sigurðssonar í efstu deild er að sjálfsögðu eitt af helstu atvikum leiksins. Skógarhlaup Guy Smit á 57. mínútu á miðjum vellinum hefði getað endað mun verr fyrir KR en Hollendingurinn uppskar gult spjald fyrir vikið.

Fyrir utan leikinn sjálfan, þá var það líklegast sérstök tilfinning fyrir Rúnar Kristinsson, þjálfara Fram, að mæta sínu uppeldisfélagi. Hann hefur aldrei mætt KR áður í deildarleik og brosir hann líklegast hringinn eftir sigurinn.

Stjörnur og skúrkar

Markaskorarinn ungi, Freyr Sigurðsson, er einn af stjörnum Fram í dag en hann skoraði snemma í leiknum. Hans fyrsta mark í fyrsta byrjunarliðsleiknum fyrir Fram. Varnarlína Fram steig varla feilspor í leiknum, Kyle McLagan, Alex Freyr Elísson og Már Ægisson svo einhverjir séu nefndir.

Guy Smit var afar óstyrkur þegar hann fékk boltann til baka og kom KR-ingum reglulega í vandræði með slökum spyrnum. Hann var heppinn að sleppa þegar hann fór í skógarhlaup á miðjum vellinum og missti boltann frá sér. Luke Rae átti ekki sinn besta dag líkt og sóknarlína KR í heild sinni en Luke var tekinn af velli í hálfleik.

Vondur dagur hjá Guy Smit, markverði KR.vísir / anton brink

Dómarar

Helgi Mikael Jónasson hélt vel utan um leikinn. Hann gaf fimm gul spjöld sem voru öll verðskulduð og var leikurinn án stórra vafaatriða.

Stemning og umgjörð

Stuðningsmenn KR létu mikið fyrir sér fara enda virðist vera mikill andi í Vesturbæingum um þessar mundir. Þeir allra hörðustu byrjuðu daginn snemma á Rauða Ljóninu og kyrjuðu sína frumlegu söngva hástöfum allan leikinn.

Það heyrðist minna í stúkunni hjá Frömurum en það var prýðis mæting á Avis-völlinn í dag þrátt fyrir haustlegar aðstæður. Partýtjald var sett upp við völlinn sem var við það að fjúka í vindinum en líkt og varnarleikur Fram þá stóð það fyrir sínu allar 90 mínútur leiksins.

Viðtöl 

Gregg:„Fram á hrós skilið“

Gregg Ryder fór vel af stað í starfi en hökti örlítið í dag. vísir / anton brink

Gregg Ryder, þjálfari KR, þurfti loks að játa sig sigraðan eftir góða byrjun á Íslandsmótinu. Hann var ekki sáttur með spilamennsku liðsins í dag.

„Þetta var ekki góð frammistaða hjá okkur og ég er vonsvikinn,“ sagði Gregg eftir leik.

„Mér fannst fyrri hálfleikur vera slakur hjá okkur og yfir allan leikinn gerðum við of mörg mistök, sérstaklega þegar við vorum með boltann. Fram á hrós skilið, mér fannst þeir spila mjög vel og þeir áttu skilið að sigra.“

Jóhannes Kristinn Bjarnason, bakvörður KR, fór meiddur af velli í upphafi síðari hálfleiks og eru þetta ekki fyrstu meiðslin í leikmannahóp KR á tímabilinu.

„Við höfum verið að glíma við nokkur meiðsli hjá leikmönnum okkar og þetta er eitt af þeim sem við getum ekkert gert í. Það var samstuð og hann meiðist á fæti. Við þurfum að skoða þetta og hvað við eigum að gera varðandi meiðslin.“

„Ég er ekki viss hvort það sé slæmt eða ekki. Við sendum hann í myndatöku og fáum niðurstöður í kjölfarið,“ sagði Gregg þegar hann var spurður út í meiðsli Jóhannesar.

Þrátt fyrir tapið er Gregg brattur fyrir framhaldinu en KR mætir KÁ í Mjólkurbikarnum í vikunni og næsti deildarleikur er á móti sterku liði Breiðabliks.

„Við erum í ferli og við byrjuðum mjög vel og allir voru mjög sáttir. Ég held ekki að við fórum fram úr okkur. Við töpuðum og lékum ekki vel en þetta er ákveðið ferli og mun taka tíma. Það er fullt af hlutum sem við verðum að gera betur og munum vinna í þeim. Að lokum, vil ég þakka stuðningsmönnum fyrir að mæta og þeir studdu okkur allan leikinn, við kunnum virkilega að meta það,“ sagði Gregg eftir tapið á móti Fram í Laugardal í dag.

Freyr: „Get eiginlega ekki útskýrt“

Framarar fögnuðu marki Freysvísir / anton brink

Freyr Sigurðsson er einn af mönnum dagsins í Bestu deildinni og hann var í skýjunum eftir sigurinn og sitt fyrsta mark í deildinni.

„Ég get eiginlega ekki útskýrt, ég er bara mjög glaður,“ sagði Freyr eftir leik.

Hann hefur verið á varamannabekk Fram í fyrstu tveimur leikjunum en fékk nú tækifæri í byrjunarliðinu.

„Já, þetta kom bara í ljós í gær. Ég frétti að maðurinn sem ég kom inn á fyrir [Tryggvi Snær Geirsson] var aðeins tæpur í öxlinni þannig ég var klár.“

Freyr var ekki viss hvort að hann myndi leika með Fram á tímabilinu en Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, ræddi við leikmanninn unga og sannfærði hann um að vera hjá félaginu.

„Ég var alltaf að spá að fara heim á lán en Rúnar sagði við mig að ég væri partur af hópnum og ákvað að halda mig hér,“ sagði Freyr.

„Þetta er geðveik byrjun, við vorum ósáttir að fá ekki stig á móti Víking. Við héldum áfram sama hugarfari í þessum og fengum þrjú stig,“ sagði markaskorarinn ungi að lokum.

Myndir

vísir / anton brink

Alex Freyr Elíssonvísir / anton brink

Kennie Chopart og Stefán Árni Geirsson mættu báðir sínum gömlu félögumvísir / anton brink

Liðin mættust á AVIS vellinum sem er að öllu jafnan heimavöllur Þróttar. vísir / anton brink

vísir / anton brink

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira