Sjö mínútna kafli eyði­lagði Evrópu­drauma Börsunga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé skoraði tvívegis og Evrópudraumur PSG lifir.
Mbappé skoraði tvívegis og Evrópudraumur PSG lifir. Clive Brunskill/Getty Images

París Saint-Germain vann ótrúlegan 4-1 útisigur á Barcelona í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Barcelona hafði unnið fyrri leikinn í París 3-2 en hrun heimamanna í kvöld var með hreinum ólíkindum.

Raphinha, sem hryllti Parísarmenn í fyrri leik liðanna, kom Börsungum yfir strax á 12. mínútu eftir undirbúning Lamine Yamal. Markið skoraði Brasilíumaðurinn af stuttu færi eftir frábæran sprett Yamal upp hægri vænginn. Þegar hér var komið við sögu virtist einvígið einfaldlega búið enda staðan orðin 4-2 Barcelona í vil. Það breyttist svo allt þegar tæpur hálftími var liðinn.

Fyrst átti Kylian Mbappé skot sem Marc-André ter Stegen varði meistaralega í marki heimamanna. Hornspyrnan var tekin og aftur fékk Mbappé gott færi en að þessu sinni rataði skot hans ekki á markið.

Á 29. mínútu breyttist leikurinn til hins verra fyrir heimamenn en Ronald Araújo braut þá á Bradley Barcola sem var á fleygiferð inn á vítateig heimamanna. Þar sem brotið var fyrir utan vítateig fékk Araújo reisupassann og var sendur í sturtu. 

Miðvörðurinn úrúgvæski var ekki á þeim buxunum og tók það hann töluverðan tíma að koma sér út af vellinum. Heimamenn marki yfir en manni færri það sem eftir lifði leiks.

Liðsmuninn nýttu gestirnir sér þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Barcola óð upp vinstri vænginn og átti fyrirgjöf sem Osumané Dembélé skilaði í netið. Afgreiðslan frábær, þéttingsfast skot upp í þaknetið í fyrsta. 

Staðan í leiknum orðin 1-1, og 4-3 Barcelona í vil í einvíginu. Var það staðan þegar síðari hálfleikur hófst.

Dembélé skoraði glæsilegt mark undir lok síðari hálfleiks.EPA-EFE/Alberto Estevez

Á 54. mínútu hófst atburðarás sem fór endanlega með Evrópudrauma Börsunga. Fyrst jafnaði Vitinha metin í einvíginu þegar hann kom PSG 2-1 yfir með frábæru skoti eftir vel útfærða hornspyrnu. PSG tók spyrnuna stutt, tvær-þrjár sendingar og boltinn sendur á Vitinha sem var hægra megin við D-bogann. 

Lét hann vaða niðri í hornið fjær og Ter Stegen kom engum vörnum við. Börsungar svöruðu með því að vaða upp völlinn og í kjölfarið átti İlkay Gündoğan skot í stöngina utanverða. 

Aðeins mínútu síðar var Xavi, þjálfari Barcelona, rekinn upp í stúku fyrir að sparka í Meistaradeildarskilti í bræðiskasti. Virtist ástæðan vera sú að þjálfarinn vildi fá hornspyrnu eftir skot Gündoğan.

Xavi lét reka sig upp í stúku þegar einvígið var í járnum.EPA-EFE/Alberto Estevez

Til að fullkomna hrunið braut João Cancelo einkar klaufalega af sér innan vítateigs skömmu síðar og gat dómari leiksins ekki annað en dæma vítaspyrna. Mbappé fór á punktinn og kom PSG 3-1 yfir með frábærri spyrnu. 

Á sjö mínútna kafla má segja að Börsungar hafi hent einvíginu gjörsamlega frá sér með því að fá á sig tvö mörk og þjálfari þeirra lét reka sig upp í stúku. 

Á 89. mínútu bætti Mbappé við öðru marki sínu og gulltryggði farseðil PSG í undanúrslitin. Hann var nálægt því að bæta við þriðja markinu sínu í uppbótartíma en Ter Stegen varði. Lokatölur á Nývangi í Katalóníu 1-4. 

Lokastaða einvígsins því 6-4 PSG í vil og Parísarbúar komnir í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem þeir mæta Borussia Dortmund.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira