Innlent

Hrókering hjá ráðu­neytis­stjórum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Benedikt Árnason og Bryndís Hlöðversdóttir munu skipta um ráðuneyti.
Benedikt Árnason og Bryndís Hlöðversdóttir munu skipta um ráðuneyti. Stjórnarráðið

Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins og matvælaráðuneytisins munu skipta um embætti.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins, en þar segir að samkomulag hafi náðst milli forsætis- og matvælaráðherra og ráðuneytisstjóra í þeim ráðuneytum um flutning hlutaðeigandi ráðuneytisstjóra milli ráðuneyta.

Það eru Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, og Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu, sem skipta um stöður. Bryndís fer því í matvælaráðuneytið og Benedikt í forsætisráðuneytið.

Breytingin mun eiga sér stað í dag, að því sem fram kemur í tilkynningu stjórnarráðsins.

Hrókeringin á sér stað í kjölfar endurnýjunar á ríkisstjórn landsins þar sem þónokkrar breytingar urðu á ráðherraskipan. Bjarni Benediktsson fór úr utanríkisráðuneytinu í forsætisráðuneytið og tók við af Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur boðið sig fram til forseta. Bjarkey Olsen fór í matvælaráðuneytið og tók við af Svandísi Svavarsdóttur sem fór í innviðaráðuneytið.

Bryndís Hlöðversdóttir tók við ráðuneytisstjórn í forsætisráðuneytinu í upphafi árs 2020, en Benedikt Árnason var skipaður ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytisins, sem þá hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, árið 2021.


Tengdar fréttir

Bjarkey stal senunni á fyrsta ríkisstjórnarfundi Bjarna

Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktsonar kom saman á sínum fyrsta ríkisstjórnarfundi í morgun. Ríkisstjórnin var kynnt á þriðjudaginn og lyklaskipti fóru fram á miðvikudagsmorgun. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nýr matvælaráðherra skartaði rauðri blússu og svörtu pilsi í tilefni dagsins.

„Ekki biðja um að þetta sé auðvelt“

Bjarni Benediktsson, sem verður skipaður forsætisráðherra á eftir, segir að það liggi vel á sér. Hann segir að sitt fyrsta verk í nýja ráðuneytinu verði að stilla sama strengi við aðra ráðherra endurnýjaðrar ríkisstjórnar. Honum þyki mikilvægt að byrja vel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×