Viðskipti innlent

Markaðs­torg með raf­orku spretta upp

Kjartan Kjartansson skrifar
Ætlun Vonarskarðs er að halda vikuleg uppboð á rafmagni. Raforkumarkaðurinn hefur fram að þessu einkennst af árlegum risauppboðum.
Ætlun Vonarskarðs er að halda vikuleg uppboð á rafmagni. Raforkumarkaðurinn hefur fram að þessu einkennst af árlegum risauppboðum. Vísir/Vilhelm

Fyrsta íslenska raforkukauphöllin hefur starfsemi sína í dag. Landsvirkjun, langumsvifamesti aðilinn á raforkumarkaði, er ekki þátttakandi í kauphöllinni eins og sakir standa. Dótturfélag Landsnets opnar einnig uppboðsmarkað á næstu vikum.

Níu af tíu raforkufyrirtækjum sem hafa leyfi til þess að taka þátt í reglulegum markaði með rafmagn á Ísland eiga í samvinnu við nýju kauphöllina. Aðeins Landsvirkjun stendur utan hennar en það er rakið til skerðingar á afhendingu orku sem fyrirtækið þarf nú að grípa til vegna slæmrar vatnsstöðu á hálendinu.

Fyrirtækið Vonarskarð ehf. stendur að raforkukauphöllinni. Það er í eigu Björgvins Skúla Sigurðssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, og Kristínar Friðgeirsdóttur. Björgvin var framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar frá 2013 til 2017.

Félagið vakti nokkra athygli í fyrra þegar það stóð fyrir fyrsta sameiginlega söluferli allra fyrirtækja á heildsölumarkaði með rafmagn. Slík viðskipti höfðu áður farið í gegnum orkufyrirtækin sjálf. Landsvirkjun, langstærsti söluaðilinn á heildsölumarkaðinum, fól Vonarskarði að sjá um söluferli fyrir sig eitt skipti, haustið 2022.

Raforkueftirlit Orkustofnunar hóf rannsókn á Vonarskarði eftir söluferlið og fréttaflutning af því síðasta sumar. Hún beindist að því hvort að starfsemi þess væri þess eðlis að hún krefðist raforkuviðskiptaleyfis.

Björgvin segir í samtali við Vísi að rannsóknin hafi tekið fimm mánuði og tafið stofnun kauphallarinnar. Niðurstaðan hafi verið að Vonarskarð hefði ekki þurft frekari leyfi fyrir söluferlinu. Vonarskarð fékk leyfi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til reksturs raforkumarkaðar í desember.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vonarskarðs sem rekur raforkukauphöll.

Landsvirkjun endurskoðar stöðuna þegar vorar

Björgvin að sameiginlega söluferlið í fyrra hafi verið nokkurs konar generalprufa fyrir kauphöllina sem hafi gengið fullkomlega upp.

„Núna er þetta orðið þannig að það er verið að opna formlegan vettvang sem verður starfandi til að byrja með næstu mánuðina en svo náttúrulega þróum við hann áfram,“ segir hann.

Ætlunin er að halda vikuleg uppboð á rafmagni í nýju kauphöllinni. Það er verulega breyting á markaði sem hefur að miklu leyti snúist um árlegt söluferli Landsvirkjunar. Björgvin segist vonast til þess að sá risi á markaðinum byrji að taka þátt í kauphöllinni jafnvel strax í næsta mánuði.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir fyrirtækið halda að sér höndum á meðan það er ekki aflögufært um raforku. Mögulega þátttaka í raforkukauphöll verði endurskoðuð þegar vatnsbúskapurinn tekur við sér ef ástæða þykir til. Það gæti gerist í maí eða júní.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Segir fyrirkomulagið geta sparað opinberum aðilum milljónir

Raforkuviðskiptaleyfi kauphallarinnar þýðir að opinber fyrirtæki, sem hafa skyldu til þess að bjóða út raforkukaup sín, geta nýtt sér þjónustu hennar í stað þess að bjóða kaupin út.

„Það getur sparað opinberum fyrirtækjum einhverjar milljónir á ári,“ segir Björgvin.

Kauphöllin hefur tekjur sínar af þátttökugjaldi sem orkufyrirtækin greiða fyrir aðgang að markaðinum.

„Keppnin hjá Vonarskarði hefur verið að gera þetta eins ódýrt eins og mögulegt er en þó þannig að þetta virki fyrir alla,“ segir Björgvin.

Dótturfélag Elmu með eigin markaðstorg á næstu vikum

Vonarskarð situr ekki lengi eitt að uppboðsmarkaði með rafmagn. Elma, dóttufélag Landsnets, er einnig tilbúið með uppboðsmarkað fyrir raforkusamninga til lengri tíma. Félagið fékk viðskiptaleyfi til reksturs raforkumarkaðar á sama tíma og Vonarskarð.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu, segir unnið að gerð samstarfssamninga við orkufyrirtæki og stefnt sé að því að að halda fyrsta uppboðið innan örfárra vikna.

Viðskipti á langtímasamningamarkaðinum fara fram á milli aðila á rafrænu markaðstorgi þar sem Elma kemur viðskiptunum á með sjálfvirkum hætti. Öðru máli gegnir um fyrirhugaðan uppboðsmarkað með svonefndar skammtímavörur, kaup á rafmagni innan dags eða með skömmum fyrirvara. 

Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Elmu.

Katrín Olga segir að flóknara mál sé að koma skammtímamarkaðinum á koppinn. Á þeim markaði sé Elma svonefndur miðlægur mótaðili í viðskiptunum líkt og kauphöllin er á fjármálamarkaði. Enn sé unnið að því að velja samstarfsaðila og móta reglur.

„Því skiptir máli að leikreglurnar séu eins skýrar á þessu markaðstorgi og þau eru á markaðstorgi með fjármálagjörninga. Þess vegna er þetta kannski flóknara og tekur lengri tíma,“ segir framkvæmdastjóri Elmu en stefnt er að því að skammtímamarkaðurinn fari af stað í kringum næstu áramót.

Spurð að því hvort að nóg pláss sé fyrir tvo viðskiptavettvanga fyrir raforku á Íslandi segir Katrín Olga að það verði að koma í ljós.

„Það voru tveir aðilar sem fengu leyfi og við bara vinnum eftir því. Það er bara mjög eðlilegt að það sé unnið eftir því umhverfi sem okkur er skaffað,“ segir hún. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×