Körfubolti

Fyrrum að­stoðar­kona kærir Dennis Rodman fyrir líkams­á­rás

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dennis Rodman er ekki ókunnugur því að komast í kast við lögin.
Dennis Rodman er ekki ókunnugur því að komast í kast við lögin. Vísir/Getty

Dennis Rodman, fyrrum NBA stjarna og margfaldur meistari, var kærður af fyrrum starfsmanni sínum fyrir líkamsárás. 

Konan sem kærir Rodman var ráðin til starfa sem aðstoðar- og listakona fjölskyldu Rodman. Hún ásakar Rodman um að hafa skellt bílhurð á hönd sína og slasað hana alvarlega. 

Í kærunni kemur fram að Rodman hafi boðið konunni að búa heima hjá sér og starfa fyrir fjölskylduna. Heimilinu var lýst sem erfiðu vinnuumhverfi þar sem Rodman hellti sér ítrekað yfir hana, vakti hana á nóttunni og öskraði margsinnis að ástæðulaustu. 

Þolinmæðin var því algjörlega á þrotum þegar Rodman skellti bílhurð á hönd hennar. Konan segist hafa orðið fyrir varanlegum taugaskaða og krefst 1 milljón dollara í skaðabætur. 

Lögfræðingurinn Tony Buzbee lagði fram kæruna fyrir hönd konunnar, nafns hennar var ekki getið. Buzbee gerði garðinn frægan í máli sem hann vann fyrir hönd fjölda kvenna gegn fyrrum NFL stjörnunni Deshaun Watson. 

Rodman hefur ekki gefið út yfirlýsingu vegna málsins en The Guardian greinir frá því að önnur aðstoðarkona hafi svarað síma hans, sagt þetta algjöran þvætting og peningaplokk. 

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem hegðun Rodman hneykslar, hvort sem það er utan vallar eða innan. Undanfarin ár hefur hann opinskátt greint frá andlegum veikindum sínum og baráttunni við eiturlyfjafíkn. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×