Handbolti

Stjarnan tryggði sér odda­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stjarnan jafnaði metin.
Stjarnan jafnaði metin. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan lagði Aftureldingu í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta sem þýðir að það þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið kemst í undanúrslit.

Afturelding vann fyrsta leik liðanna með eins marks mun og það sást í fyrri hálfleik að Stjarnan ætlaði sér að hefna fyrir tapið í Mosfellsbæ. Staðan í hálfleik var 16-10 en í þeim síðari vöknuðu gestirnir af værum blundi.

Tókst Aftureldingu að minnka muninn niður í aðeins eitt mark undir lok leiks en tókst ekki að finna jöfnunarmarkið og það nýtti Stjarnan sér. Skoruðu heimamenn síðasta mark leiksins og unnu tveggja marka sigur, 27-25. Sigurinn þýðir að liðin mætast að nýju í Mosfellsbæ þar sem sæti í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta er undir.

Þórður Tandri Ágústsson var markahæstur í liði Stjörnunnar með sex mörk. Þar á eftir komu Tandri Már Konráðsson og Pétur Árni Hauksson með fjögur mörk hver. Í markinu varði Adam Thorstensen 15 skot í markinu.

Birgir Steinn Jónsson skoraði 9 mörk fyrir Aftureldingu og Jovan Kukobat varði 13 skot í markinu.


Tengdar fréttir

Valur fyrsta lið inn í undanúrslit

Valur varð fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Olís deildar karla með tveimur öruggum sigrum gegn Fram. 41-23 í fyrri leik og 24-36 sigur í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×