Handbolti

Gísli og Ómar allt í öllu þegar Mag­deburg flaug í úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir var frábær í dag.
Gísli Þorgeir var frábær í dag. Lars Baron//Getty Images

Íslenska tvíeykið Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru allt í öllu þegar Magdeburg lagði Füchse Berlin í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í handbolta. Skoruðu þeir tveir samtals 15 af 30 mörkum Magdeburgar.

Búast mátti við hörkuleik enda liðin í 1. og 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Magdeburg er stigi á eftir en með leik til góða. Í dag voru það heimamenn í Magdeburg sem voru langt um sterkari aðilinn.

Það var lítið skorað í fyrri hálfleik en heimamenn leiddu með fjórum þegar gengið var til búningsklefa, staðan þá 14-10. Í síðari hálfleik gerðu gestirnir áhlaup og tókst þeim að minnka muninn niður í eitt mark en nær komust þeir ekki.

Niðurstaðan sannfærandi sigur Magdeburgar sem er komið í úrslit þýsku bikarkeppninnar, lokatölur 30-25.

Gísli Þorgeir skoraði 8 mörk og gaf 2 stoðsendingar. Ómar Ingi skoraði 7 mörk og gaf einnig tvær stoðsendingar. Þá gaf Janus Daði Smárason eina stoðsendingu. Síðar í dag kemur í ljóst hvort Flensburg eða Melsungen mæti Magdeburg í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×