Körfubolti

„Vorum vit­lausar sér­stak­lega á varnarhelmingnum“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Rúnar Erlingsson var allt annað en sáttur við leikmenn sína. 
Rúnar Erlingsson var allt annað en sáttur við leikmenn sína.  Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Erlingsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfubolta, sagði leikmenn sína hafa spilað illa lungann úr leiknum þegar lið hans laut í lægra haldi fyrir Val í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar að Hlíðarenda í kvöld. 

„Það vantaði öll klókiindi í okkar leik og við vorum bara mjög slakar í 35 mínútur. Við vorum vitlausar og þá sérstaklega í aðgerðum okkar á varnarhelmingnum. Við fórum út úr leikplaninu okkar trekk í trekk og framkvæmdum hlutina bara mjög illa,“ sagði Rúnar eftir tapið. 

„Þegar það voru fimm mínútur eftir vorum við hins vegar bara með jafna stöðu þrátt fyrir að hafa spilað eins og við spiluðum. Þá köstum við leiknum frá okkur með slakri lokasókn og því fór sem fór,“ sagði Rúnar þar að auki. 

„Þetta var líklega bara beggja blands hugarfar og svo bara náðum við ekki fram því besta í okkar spilamennsku. Leikmenn náðu ekki að sýna sitt rétta andlit sem er bara mjög pirrandi á þessum tímapunkti á tímabilinu,“ sagði hann svekktur. 

„Við erum með háleit markmið en Valsliðið er líka með reynslumikla og góða leikmenn innanborðs. Það eru landsliðsmenn og atvinnumenn í þeirra röðum og við þurfum topp frammistöður til þess að komast áfram.

Nú erum var bara komnar á núllpunkt aftur og ég þarf að ýta við mínum leikmönnum og kalla fram klókdindin og hungrið til þess að fara með sigur af hólmi í Njarðvík á þriðjudaginn,“ sagði Rúnar um verkefni sitt í framhaldinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×