Skoðun

Þú þarft ekki að flokka það besta

Jóhannes B. Urbancic Tómasson skrifar

Það besta við kaffihylki er kaffið. Það versta við pasta er pokinn utan um það.

Rétt eins og þú myndir ekki tíma að kaupa þér nýjan einnota tannbursta á hverjum degi, þá tíma fæst okkar því heldur að kaupa einnota pakkningar fyrir hversdagslega hluti eins og kaffi eða pasta. Sem betur fer eru sífellt fleiri fyrirtæki að bjóða viðskiptavinum sínum að versla umbúðalausar vörur, hvort sem er fyrir heimili í smáinnkaupum eða framleiðslufyrirtæki í heildsölu.

Líttu ofan í tunnurnar næst þegar þú ferð út með ruslið. Hverjar af þessum umbúðum voru nauðsynlegar og hverjar voru óþarfar? Hvað ætli óþarfinn hafi kostað þig í innkaupum? Hversu mörgum trjám var sóað í pappírinn? Hversu mikilli olíu var sóað í plastið?

Það er mikilvægt að fyrirtæki vinni að því að heimilin geti komist af með sem minnstan úrgang. Í könnunum sjáum við að flestir landsmenn reyna nú þegar að minnka sín áhrif á umhverfið í gegnum innkaupin sín. Óþarfar pakkningar eru væntanlega ofarlega þar á lista.

Það er að sjálfsögðu gott ef umbúðir eru skýrt merktar með flokkunarleiðbeiningum.

Það er líka flott ef hráefnið í pakkningum er skárra fyrir umhverfið en það var fyrir nokkrum árum.

En langflottast er að geta sleppt þessu öllu. Umbúðunum. Óþarfanum. Og enginn þarf að flokka neitt.

Um þessar mundir erum við í Saman gegn sóun að skrifa nýja stefnu ríkisins um úrgangsforvarnir. Næstu fundir eru á Ísafirði 16. apríl og Egilsstöðum 22. apríl. Þar viljum safna hugmyndum frá sem flestum og fjölbreyttustum fyrirtækjum. Þú getur haft áhrif með því að taka þátt.

Höfundur er sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×