Innlent

Skömmuð af mat­væla­ráðu­neytinu degi áður en hún tók við

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr matvælaráðherra. Vísir/Vilhelm

Degi áður en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við sem matvælaráðherra fékk atvinnuveganefnd Alþingis, nefnd sem hún sat í þar til hún tók við ráðuneytinu, bréf frá matvælaráðuneytinu þar sem breytingar og vinnubrögð nefndarinnar voru gagnrýnd. 

Heimildin greinir frá en Bjarkey var ein af sex þingmönnum stjórnarflokkanna í nefndinni en Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður nefndarinnar. 

Bréfið var sent vegna breytinga sem gerðar voru nýlega á búvörulögum. Heimildin birtir bréfið en þar segir atvinnuveganefnd hafi breytt frumvarpinu gríðarlega til hins verra og nánast snúið tilgangi þess við. Markmiðið hafi verið að bæta hag og rétt bænda en með breytingunum hafi nefndin þvert á móti skert hag og rétt bænda. 

Með frumvarpinu hafi undanþágur fyrirtækja frá samkeppnislögum stóraukist og þá var ákvæði sem varðar fjárhagslegan aðskilnað félaga bænda frá annarri starfsemi tekið út. 

Ráðuneytið efast að búvörulögin standist EES-samninginn og kallar eftir viðbrögðum vegna mögulegra brota. 

Í viðtali við Heimildina segist Bjarkey ekki telja vinnubrögð nefndarinnar ámælisverð eða óeðlileg. 

„Það er statt þar sem það er statt og síðan verður bara að skoða hvort að nefndinni urðu á einhver mistök sem að þurfi að lagfæra. Ef að svo er ekki þá er málið þar sem það er. Ef að þess gerist þörf þá bara skoðum við það,“ sagði Bjarkey skömmu áður en hún stöðvaði viðtalið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×