Innlent

Yrði „al­gjör niður­læging fyrir Fram­sóknar­menn og Sjálf­stæðis­menn“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vilhjálmur hefur verið mjög gagnrýninn á stjórnvöld vegna hvalveiðanna.
Vilhjálmur hefur verið mjög gagnrýninn á stjórnvöld vegna hvalveiðanna. Vísir/Einar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir það myndu verða algjör niðurlæging fyrir Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn ef það kæmi í ljós að þeir hefðu ekki tryggt það í viðræðum síðustu daga að hvalveiðar verði leyfðar að nýju.

Þetta segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið, þar sem haft er eftir honum að hann hafi þungar áhyggjur af því að nýr matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, muni hafa sömu afstöðu og forveri hennar, Svandís Svavarsdóttir, til veiðanna og hafna umleitan Hvals um heimild til veiða.

„Það ligg­ur fyr­ir sam­kvæmt mín­um upp­lýs­ing­um að Hval­ur hf. skilaði inn er­indi til mat­vælaráðuneyt­is­ins í janú­ar. Það tók ráðuneytið einn og hálf­an mánuð að svara því og þar var óskað eft­ir út­skýr­ing­um og öðru slíku. Hval­ur svaraði því fyr­ir páska og hef­ur ekk­ert svar fengið um það hvort veiðar verði heim­ilaðar í sum­ar eða ekki,“ segir Vilhjálmur.

Hann segist ekki trúa öðru en að Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn, sem hafi haft „mjög hátt“ þegar Svandís frestaði veiðum og lýst stuðningi sínum við hvalveiðar, hafi tryggt í nýjum málefnasamningi að veiðarnar yrðu heimilaðar.

„Ef ekki þá yrði það algjör niðurlæging fyrir Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn. Algjör,“ segir Vilhjálmur.

Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að hann trúi ekki öðru en að nýr matvælaráðherra heimili veiðarnar en Bjarkey vildi ekki tjá sig um málið í gær að öðru leyti en að hún ætti eftir að taka formlega við matvælaráðuneytinu og funda með starfsfólki þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×