Innlent

Hafa nýtt tímann til að leysa á­­greining VG og Sjálf­stæðis­manna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Formaður Framsóknarflokksins segir viðræður forystumanna stjórnarflokkanna þriggja um helgina og í gær meðal annars hafa farið í að leysa ágreining sem hefur verið milli Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna. Ríkisstjórnarflokkarnir boða til blaðamannafundar klukkan 14 í Hörpu til að kynna áherslur nýs ráðuneytis.

Þingflokksfundi Framsóknarflokksins lauk rétt fyrir hádegi þar sem samþykkt var tillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar um áframhaldandi stjórnarsamstarf og uppstokkun í ríkisstjórninni.  Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti sams konar tillögu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins í gærkvöldi.

Einhverjar áherslubreytingar

Sigurður Ingi segir samstarfið halda áfram á grundvelli þess stjórnarsáttmála sem gerður var í upphafi kjörtímabilsins.

„Það verða kannski einhverjar áherslubreytingar varðandi forgangsröðun og slíka hluti sem við skýrum betur frá en fyrst og fremst er þetta áframhaldandi samstarf sem við erum búin að vera að fara yfir,“ segir Sigurður.

Klippa: Sigurður Ingi sáttur með hrókeringarnar

Ríkisráðsfundur síðar í dag

Hann segir hluta af samtalinu milli forystumanna flokkanna um helgina hafa farið í að leysa úr ágreiningi Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna. Það væri mikilvægt að nýta tímann til að horfa björtum augum fram til loka kjörtímabils.

„Varðandi útfærslur nánari en ég hef hér lýst ætlum við að geyma þangað til seinna í dag því þetta er enn til umfjöllunar í öðrum flokkum. Við erum sátt við að halda áfram þessu ríkisstjórnarsamstarfi á þeim grunni sem við formennirnir og varaformennirnir höfum talað um um helgina,“ segir Sigurður.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stefna ríkisstjórnarflokkarnir á blaðamannafund í Hörpu klukkan 14 þar sem greint verður frá niðurstöðu flokkanna. Þá er stefnt á að ríkiðsráðsfundur fari fram síðar í dag á Bessastöðum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×