Íslenski boltinn

„Vonandi er maður að spara mörkin fyrir restina af leiktíðinni“

Andri Már Eggertsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði gegn ÍA í kvöld
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði gegn ÍA í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Valur vann 2-0 sigur gegn ÍA í 1. umferð Bestu deildarinnar. Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Vals, var á skotskónum í sínum fyrsta leik í efstu deild.

„Það var frábært fyrir mig persónulega að ná að skora og ennþá mikilvægara fyrir okkur að ná í þrjú stig og það var frábært að halda hreinu. Heilt yfir var þetta mjög góður leikur hjá okkur,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Vísi eftir leik.

Gylfi skoraði annað mark Vals í seinni hálfleik og að hans mati hefði hann átt að skora fleiri mörk þar sem hann fékk nokkur færi.

„Aron [Jóhannsson] skallaði boltann niður á mig og ég var að búast við aðeins betri sendingu frá honum en þegar þú ert inn í teignum reynir maður að koma boltanum fyrir sig svo maður geti skotið og það þarf ekki að vera fast.“

„Ég hefði átt að skora úr færinu sem ég fékk í fyrri hálfleik en í seinna færinu varði hann frábærlega en ég hefði átt að gera betur og vonandi er maður að spara mörkin fyrir restina af leiktíðinni.“

Þrátt fyrir mikla yfirburði skoraði Valur aðeins eitt mark í tæplega sextíu mínútur og Gylfi sagði að það myndi taka tíma að koma liðinu í gang.

„Við vorum mikið með boltann og þegar að Skagamenn voru bara 1-0 undir þá voru þeir alltaf inni í leiknum. Þetta var fyrsti leikur og það tekur tíma að koma liðinu almennilega í gang en mér fannst við vera með mikla yfirburði og spiluðum boltanum mjög vel. Við erum með góða leikmenn frammi og við hefðum eiginlega þurft þriðja markið til þess að klára leikinn algjörlega,“ sagði Gylfi að lokum.


Tengdar fréttir

Leik lokið: Valur - ÍA 2-0 | Gylfi á skotskónum í sigri Vals

Valur vann 2-0 sigur gegn ÍA. Yfirburðir Valsmanna voru miklir og sigurinn hefði getað verið stærri. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í sínum fyrsta leik í efstu deild og stóðst allar væntingar. Uppgjör og viðtöl væntanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×