Fótbolti

Varnarmennirnir skutu Tottenham í Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Micky van de Ven skoraði glæsilegt mark fyrir Tottenham í kvöld.
Micky van de Ven skoraði glæsilegt mark fyrir Tottenham í kvöld. Nigel French/PA Images via Getty Images

Tottenham Hotspur kom sér í Meistaradeildarsæti er liðið vann 3-1 sigur gegn Nottingham Forest í seinasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Heimamenn í Tottenham voru mun hættulegri framan af leik og það skilaði sér á 15. mínútu þegar miðvörðurinn Murillo varð fyrir því óláni að stýra fyrirgjöf Timo Werner í eigið net.

Þrátt fyrir stífa sókn heimamanna eftir markið voru það gestirnir í Nottingham Forest sem náðu að jafna metin þegar Chris Wood setti boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Anthony Elanga á 27. mínútu. Wood var svo hársbreidd frá því að koma Forest í forystu nokkrum mínútum síðar, en setti boltann í stöngina.

Staðan í hálfleik því 1-1, en heimamenn í Tottenham héldu áfarm að herja á mark gestanna í upphafi síðari hálfleiks. Það skilaði loksins marki á 53. mínútu þegar þrumufleygur miðvarðarins Micky van de Ven endaði í netinu og fimm mínútum síðar innsiglaði bakvörðurinn Pedro Porro sigur Tottenham með góðu marki.

Niðurstaðan því 3-1 sigur Tottenham sem nú situr í fjórða sæti deildarinnar með 60 stig eftir 31 leik. Nottingham Forest situr hins vegar í 17. sæti með 25 stig, en það er aðeins markatalan sem heldur liðinu frá fallsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×