Innlent

Bíl Tjokkó lagt í neyðarbílastæði meðan hann tróð upp

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Patrik vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu. 
Patrik vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu.  Aðsend

Tónlistarmaðurinn Patrik Atlason, eða Prettyboitjokkó, tróð upp á glæsilegri árshátíð Landsbankans í Laugardalshöll í gærkvöldi. Það væri þó ekki í frásögur færandi nema fyrir það að meðan á „gigginu“ stóð lá glæsikerra hans í stæði sem ætlað er neyðarbílum. 

Tjokkó var meðal fjölmargra listamanna sem komu fram á árshátíðinni. GusGus, Jón Jónsson, Góss, Valdimar, Ragga Gísla og Bandmenn sáu um að halda stuðinu uppi. Selma Björnsdóttir og Salka Sól veislustýrðu.

Vísi barst ábending um að hvítum Porsche-jeppa hefði verið lagt í bílastæði við inngang Laugardalshallarinnar, sem merkt er neyðarbílum. 

Glöggir gætu kannast við jeppann, en athygli vakti þegar Patrik festi kaup á bílnum skömmu eftir að hafa fjárfest í ljósblárri sportbifreið af tegundinni Porsche Taycan. Enn meiri athygli vakti þegar útvarpsmaðurinn Ágúst Beinteinn Árnason gaf honum einkanúmerið PBT í 29 ára afmælisgjöf.

Patrik vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu. „No comment,“ sagði Ágúst Beinteinn, sem einnig er umboðsmaður hans, í samtali við Vísi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×