Innlent

Tíma­spurs­mál hve­nær hraun fari að renna til norðurs

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Aðeins er virkni í einum gíg.
Aðeins er virkni í einum gíg. Vísir/Vilhelm

Aðeins gýs í einum gíg við Sundhnúka. Fjarað hefur út í syðri og smærri gígnum. Sá sem enn gýs í hækkar jafnt og þétt og gnæfir um 25 metra yfir hraunbreiðunni. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir það vera tímaspursmál hvenær hraun fer að renna til norðurs.

„Það er þessi eini gígur sem er að gjósa. Það hefur ekki verið að mælast nein gasmengun síðasta sólarhringinn,“ segir vakthafandi á Veðurstofu Íslands.

Hraunáin rennur úr gígnum til suðurs og myndar þar hrauntjörn. Úr hrauntjörninni leka litlar hraunkvíslir en lokaðar hraunrásir virðast líka vera til staðar þar sem hraun birtist undan hraunjaðrinum.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands segir það líklega tímaspursmál hvenær farvegir hraunsins breytast og hraunið fer að leita til norðurs í auknum mæli.

„Hraunbreiðan sunnan gígana er orðin mun hærri í landinu en norðan þeirra. Hraunbreiðan hefur fyllt í kvosina milli Hagafells og Vatnsheiðar,“ kemur fram í færslu sem hópurinn birti á síðu sína á Facebook í morgun.

Þegar hraunið fer að renna til norðurs mun það renna yfir stóru hraunbreiðuna sem myndast hefur í vetur. Hópurinn áætlar að tíu til fimmtán metra munur sé á hæð hraunbreiðunnar norðan gígs samanborið við sunnan við hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×