Innlent

Úti­lokar ekki kosningar eftir brott­hvarf for­sætis­ráð­herra

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir eftirsjá af Katrínu Jakobsdóttur sem öflugum stjórnmálaleiðtoga.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir eftirsjá af Katrínu Jakobsdóttur sem öflugum stjórnmálaleiðtoga. Vísir/Vilhelm

Formaður Framsóknarflokksins útilokar ekki að til kosninga komi eftir að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um að hún ætlaði að biðjast lausnar sem forsætisráðherra til að fara í forsetaframboð í dag. Eðlilegast sé þó að núverandi stjórnarflokkar ræði fyrst saman.

Katrín, sem hefur leitt ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sjö ár, greindi frá ákvörðun sinni í dag. Hún ætlar að biðjast lausnar sem forsætisráðherra á sunnudag og segja af sér þingmennsku á mánudag.

Þó að lengi hafi verið rætt um mögulegt forsetaframboð Katrínar liggur ekkert fyrir um hver afdrif ríkisstjórnarinnar verða. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að þó að fulltrúar stjórnarflokkanna hafi vissulega talað saman undanfarna daga hafi ekki verið hægt að byrja að ræða framhaldið formlega fyrr en ákvörðun Katrínar lá fyrir.

„Þegar forsætisráðherra hverfur úr embætti og óskar eftir lausn síns ráðuneytis kallar það á einhverjar breytingar. Það þarf að búa til nýtt ráðuneyti og í raun og veru nýja ríkisstjórn,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Kallar á samtal flokkanna þriggja

Spurður út í möguleikann á þingkosningum sagði Sigurður Ingi það valkost sem ætti ekki að gleyma. Hann hafi sjálfur talað fryir því að það væri mögulega einfaldasti kosturinn.

„Ég útiloka aldrei neitt,“ sagði hann.

Þó sagði hann eðlilegast að núverandi ríkisstjórnarflokkar ræddu fyrst saman. Tíminn væri naumur því æskilegt væri að ein ríkisstjórn tæki strax við af annarri.

„Það kallar auðvitað bara á samtal við nýja forystu VG og milli Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og þeirra forystu,“ sagði formaður Framsóknarflokksins sem gaf ekkert upp um hvort hann gerði kröfu um að verða forsætisráðherra í áframhaldandi samstarfi flokkanna þriggja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×