Fótbolti

De Zerbi og Nagelsmann lík­legastir til að taka við Bayern

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roberto De Zerbi gæti tekið við Bayern München í sumar.
Roberto De Zerbi gæti tekið við Bayern München í sumar. Ivan Romano/Getty Images

Reberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, og Julian Nagelsmann, þjálfari þýska landsliðsins, eru þeir tveir kandídatar sem telja líklegastir til að taka við stjórastöðu þýska stórveldisins Bayern München í sumar.

Það er Sky í Þýskalandi sem greinir frá því að De Zerbi og Nagelsmann séu líkegastir til að taka við starfinu af Thomas Tuchel sem stígur til hliðar að yfirstandandi tímabili loknu. Gengi Bayern í vetur hefur ekki verið upp á marga fiska á þeirra mælikvarða, en liðið situr í öðru sæti þýsku deildarinnar, 13 stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen.

Bayern hafði einmitt horft hýru auga til þjálfara Bayer Leverkusen, Xabi Alonso. Spánverjinn hefur hins vegar gefið út að hann sé ekki á förum í bili og muni halda áfram sem þjálfari toppliðsins á næsta tímabili.

Forráðamenn Bayern München þurfa því að leita annað og horfa nú til Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóra Brighton í ensku úrvalsdeildinni. De Zerbi, sem hefur einnig verið orðaður við Liverpool, hefur neitað að staðfesta að hann verði áfram hjá Brighton á næsta tímabili og sagði hann í síðustu viku að hann vildi eiga orð við eiganda liðsins, Tony Bloom, um næstu skref.

„Ég hef aðrar leiðir til að ákveða framtíð mína,“ sagði De Zerbi, aðspurður að því hvort hann gæti fullvissað stuðningsmenn Brighton um framtíðina.

Þá hefur Julian Nagelsmann, þjálfari þýska landsliðsins og fyrrverandi þjálfari Bayern München, einnig verið orðaður við endurkomu til félagsins. Nagelsmann þjálfaði liðið frá árinu 2021, en var látinn fara í mars 2023. Þá tók Thomas Tuchel við liðinu og hefur verið við stjórnvölin síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×