Innlent

„Svona ýkta skemmdar­fýsn er erfitt að skilja“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þessi sjón blasti við þegar Emil kom í Grasagarðinn klukkan tíu á þriðjudagsmorgun. Búið var að eyðileggja útilistaverk hans aðeins þremur dögum eftir að það var sett upp.
Þessi sjón blasti við þegar Emil kom í Grasagarðinn klukkan tíu á þriðjudagsmorgun. Búið var að eyðileggja útilistaverk hans aðeins þremur dögum eftir að það var sett upp.

Útilistaverk í Grasagarðinum var brotið í sundur og bútunum kastað í tjörn aðeins þremur dögum eftir uppsetningu þess. Myndlistarmaðurinn segir grátlegt að sjá margra mánaða vinnu gerða engu og telur hóp hafa verið að verki. Hann vonast þó til að verkið rísi á ný annars staðar.

Emil Gunnarsson, myndlistarnemi á fyrsta ári í meistaranámi við LHÍ, vann viðarskúlptúrinn „Þinn taktur“ fyrir sýninguna Hugsandi haugur í Grasagarðinum.

Emil Gunnarsson er á fyrsta ári í MA-námi í myndlist við LHÍ

Ellefu myndlistarnemar úr LHÍ og nokkrir listfræðinemar úr HÍ komu að sýningunni sem opnaði laugardaginn 23. mars og stendur til morgundagsins, 2. apríl. 

Verk Emils fékk þó ekki að njóta sín óáreitt nema í stutta stund.

„Á þriðjudagsmorgun, þremur dögum eftir opnun, mætti ég ófagri sjón. Búið var að rífa verkið í sundur og fleygja því í tjörnina, greinilega í skjóli nætur af því ég var þarna kvöldið áður,“ segir Emil.

„Margra mánaða vinna gerð að engu“

Verkið „Þinn taktur“ er stór gagnvirkur viðarskúlptúr sem var að sögn Emils innblásinn af riþma, náttúrumynstri og mannlegri náttúru. Það var hægt að stíga upp á verkið, sitja á því og ganga ofan á því. 

Verkið var hugsað þannig að almenningur gætið notað það og notið þess og virtust börn og fullorðnir hafa gaman af verkinu dagana sem það var uppi.

„Þetta var stórt og níðþungt verk svo það hefur þurft þvílík átök til að brjóta það í sundur og fleygja því. Ég lagði mikla ástríðu, metnað og peninga í verkið og þarna er marga mánaða vinna gerð að engu,“ segir Emil.

Hér má sjá ungan listunnenda njóta verksins.Hreinn Hákonarson

Telur hóp fólks hafa unnið skemmdirnar

„Það er hægt að búast við ýmsu með útiverkum en svona ýkta skemmdarfýsn er erfitt að skilja og svolítið grátlegt,“ segir hann.

Þegar verkið var sett upp þurfti fimm manns til að halda á því stuttan spöl svo Emil telur líklegt að um hóp hafi verið að ræða. Hópurinn virðist hafa fengið útrás fyrir skemmdarþörfinni víðar af því búið var að kasta nokkrum bekkjum garðsins í tjörnina og velta öðrum á hvolf.

Þannig það voru fleiri skemmdarverk unnin þarna?

„Á lóðinni já. En hin útilistaverkin voru látin í friði,“ segir Emil.

Næst ekki að setja verkið aftur upp fyrir sýningarlok

Emil segir tímasetningu skemmdarverksins og eðli skemmdana þýða að verkið verður ekki sett aftur upp í Grasagarðinum.

Ungir sem aldnir gátu notið verksins eins og sjá má hér.Facebook

Hefurðu reynt að setja verkið saman aftur?

„Það var einmitt stór spurning. Öll grindin undir fótganginum, bara verkinu sjálfu, var ónýt. Hún var rifin upp alls staðar þar sem voru samskeyti og skrúfur. Þar lá eiginlega mesti efniskostnaðurinn og vinnan,“ segir Emil

„Svo er páskafrí akkúrat núna og verkstæðin sem ég hef aðgang að eru lokuð. Allt þetta spilaði saman og nú er sýningin að loka, það er seinasti dagur á morgun,“ segir hann og því ljóst að það verður ekki hægt að setja verkið upp aftur fyrir sýningarlok.

„Það var algjör draumur að sýna verk í Grasagarðinum þannig þetta var hundleiðinlegt,“ segir hann.

Verkið muni líklega rísa á ný

Emil langar að leyfa verkinu að lifa lengur og vonast til að setja það upp í Elliðaárdalnum í maí og vinna með nokkrum gjörningalistamönnum við að nýta verkið í gjörninga.

Stefnirðu á að setja það saman aftur og setja upp annars staðar?

„Mér finnst eins og ég þurfi að gera það. Mig langar að leyfa hugmyndinni og verkinu að lifa lengur. Það voru þegar tvö til þrjú samstörf með performans-artistum plönuð þar sem við ætluðum að nota verkið. Svo er ég að sýna á sýningu í Elliðaárdalnum í maí og þar ætlaði ég líka að vera með verkið,“ segir Emil.

 „Líklegast mun ég byggja það upp aftur. Það er bara smá umræða með sýningarstjórunum í þeim verkefnum,“ segir hann. 

Vonandi verður af þeim plönum svo áhugasamir geti skoðað verkið hvort sem það verður í Elliðaárdalnum eða annars staðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×