Fótbolti

Xavi kærir tvo menn fyrir meið­yrði

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Xavi lætur ekki ljúga upp á sig.
Xavi lætur ekki ljúga upp á sig. Ion Alcoba Beitia/Getty Images

Xavi, fyrrum leikmaður og núverandi þjálfari Barcelona, hefur stefnt tveimur fjölmiðlamönnum fyrir meiðyrði.

Marca greindi frá málinu. Fjölmiðlamennirnir sem Xavi kærir eru Manuel Jabois, sem starfar hjá dagblaðinu El Pais og útvarpstöðinni Cadena Ser, og Javier Miguel sem er sjálfstætt starfandi.

Manuel Jabois sagði frá því í útvarpsþætti, sem má sjá í spilaranum hér fyrir neðan, að Xavi hafi reiðst honum og sent óviðeigandi skilaboð. Jabois leiðrétti sjálfan sig svo og sagði Xavi ekki hafa sent beint á sig heldur á sameiginlegan kunningja þeirra sem áframsendi skilaboðin á Jabois.

Xavi hefur neitað allri sök og segist hvorki þekkja né hafa nokkurn tímann tjáð sig um Jabois.

Javier Miguel kom fram og sakaði Xavi um ókurteisi og yfirgang í samskiptum við undirmenn sína. Hann sagði Xavi hafa þvingað starfsfólk til að láta farsíma af hendi eftir að upplýsingar láku úr herbúðum Barcelona, eitthvað sem Xavi hefur einnig harðlega neitað.

„Þetta hefur aldrei komið fyrir mig áður. Ég átta mig á minni stöðu og skil gagnrýni upp að vissu marki en ég mun ekki þola lygar og tilbúning“ sagði Xavi um ákvörðunina að leggja fram kæru. Ekki hefur komið fram hvers hann krefst til skaðabóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×