Erlent

Gísla­töku­maðurinn áður komið við sögu hjá lög­reglu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn um hádegisbil.
Maðurinn var handtekinn um hádegisbil. Vísir/EPA

Gíslatökumaðurinn sem handtekinn var í Hollandi í morgun hefur áður komist í kast við lögin. Maðurinn kom á næturklúbbinn Petticoat í bænum Ede í Hollandi um klukkan sex í nótt og hótaði að sprengja staðinn í loft upp. 

Gíslatökunni lauk um hádegi í dag en engan af sjö gíslum hans sakaði. Maðurinn er ekki grunaður um hryðjuverk.

Gíslatakan varði alls í um sex klukkutíma og endaði með því að einn var handtekinn um hádegisbil í dag. Um er að ræða karlmann sem var leiddur í burtu af lögreglu í handjárnum og með bundið fyrir augun. Maðurinn var samkvæmt hollenskum yfirvöldum með hnífa á sér.

Maðurinn var handjárnaður og bundið fyrir augu hans. Vísir/EPA

Stuttu áður en maðurinn var handtekinn sleppti hann þremur sem öll voru klædd í fatnað frá næturklúbbnum. Í frétt hollenska miðilsins Telegraaf segir að þau hafi augljóslega verið í miklu uppnámi. Stuttu síðar var fjórðu manneskjunni sleppt en hann klæddist appelsínugulum jakka. Eftir það var maðurinn handtekinn og eftir það þrír síðustu gíslarnir frelsaðir.

Enn er verið að rannsaka svæðið og er það því lokað almenningi. Mikill viðbúnaður var á vettvangi í morgun og voru um 150 heimili í nálægð við staðinn rýmd.

„Þetta er hræðileg staða fyrir þetta fólk. Ég hef miklar áhyggjur af þeim og hugsa til þeirra og ástvina þeirra. Ég vona að hægt verði að leysa úr þessu fljótt og örugglega,“ var haft eftir bæjarstjóra Ede, René Verhulst, í frétt Telegraaf á meðan gíslatakan stóð enn yfir.

Maðurinn var handtekinn um hádegisbil. Vísir/EPA

Það er aðallega ungt fólk sem sækir staðinn samkvæmt frétt Telegraaf. Í gær, föstudag, var haldinn viðburður sem var búinn um klukkan 4 í nótt. Samkvæmt skipuleggjendum voru þau farin um 4.15 af staðnum. Það var svo um klukkan sex sem lögregla og aðrir viðbragðsaðilar voru kölluð að Petticoat vegna hótana mannsins.


Tengdar fréttir

Gíslatökumaðurinn  í Hollandi handtekinn

Einn hefur verið handtekinn vegna gíslatöku í borginni Ede í Hollandi í morgun. Karlmaður gekk inn á næturklúbb í morgun vopnaður og hótaði að sprengja staðinn í lof tupp. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×