Enski boltinn

Alonso fari hvergi og Liverpool snýr sér annað

Valur Páll Eiríksson skrifar
Xabi Alonso er sagður ætla að halda kyrru fyrir í Leverkusen.
Xabi Alonso er sagður ætla að halda kyrru fyrir í Leverkusen. AP

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöld að stjórnarmenn hjá Liverpool hafi gott sem afskrifað möguleikann á að fá Xabi Alonso til að taka við félaginu. Þeir skoði nú aðra kosti.

Alonso er fyrrum leikmaður Liverpool, en hann lék með félaginu frá 2004 til 2009. Félagið leitar eftirmanns Jurgen Klopp sem ljóst er að mun hætta þjálfun liðsins í sumar.

Alonso var talinn ofarlega á lista en bæði Liverpool og Bayern Munchen, annað fyrrum félag Alonso, hafa borið víurnar í hann síðustu vikur. Spánverjinn er sem stendur þjálfari Bayer Leverkusen í Þýskalandi en félagið á enn eftir að tapa leik í öllum keppnum á leiktíðinni og virðist ætla að vinna þýska meistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Nýjustu fregnir herma að Alonso vilji ekki færa sig um set í sumar og ætli að halda kyrru fyrir í Leverkusen. Þau tíðindi hafa ekki verið staðfest en stjórnarmenn Bayern halda í vonina um að fá spænska þjálfarann en samkvæmt bresku miðlunum mun Liverpool snúa sér að öðrum þjálfaraefnum.

Paul Joyce greindi fyrst frá í gær en síðan hafa fregnirnar verið sagðar í flestum breskum miðlum.

Amorim er efstur á lista Liverpool.Getty

Liverpool hefur þegar gengið frá ráðningu á Michael Edwards og Richard Hughes sem munu leiða þjálfaraleitina, en þeir munu fara með stjórn íþróttamála hjá félaginu frá sumrinu.

Rúben Amorim, 39 ára Portúgali sem stýrir Sporting Lissabon, er sagður efstur á óskalista Liverpool. Hann hefur stýrt Sporting frá 2020 og vann portúgalska meistaratitilinn með félaginu árið 2021. Sporting er sem stendur efst í deildinni, stigi á undan grönnum þeirra í Benfica.

Roberto De Zerbi, stjóri Brighton, er einnig á lista Liverpool en Hughes er sagður mikill aðdáandi Ítalans sem hefur gert góða hluti með suðurstrandarfélagið, þó aðeins hafi hallað undan síðustu vikur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×