Fótbolti

Sigurinn á Ís­landi var „gjöf til úkraínsku þjóðarinnar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oleksandr Zinchenko og Artem Dovbyk fagna sigri á Íslandi í Póllandi í gær.
Oleksandr Zinchenko og Artem Dovbyk fagna sigri á Íslandi í Póllandi í gær. AP/Czarek Sokolowski

Úkraína tryggði sér sæti á Evrópumótinu í fótbolta í sumar með 2-1 endurkomusigri á Íslandi í úrslitaleik umspilsins í gærkvöldi.

Þetta verður fjórða Evrópumótið í röð hjá úkraínska landsliðinu en nú er staðan allt öðruvísi en áður eftir innrás Rússlands í landið. Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum og það er enginn endir á stríðinu í sjónmáli.

Úkraínumenn fjölmenntu á leikinn á móti Íslandi og voru með borða þar sem þeir gagnrýndu Rússland og forsetann Vladimír Putin. Rússland má ekki taka þátt í þessu Evrópumóti vegna innrásar sinnar.

„Ég er mjög stoltur af því að vera Úkraínumaður og að í mér rennur sama blóð og hjá þeim sem eru gefa líf sitt fyrir frelsi okkar,“ sagði Oleksandr Zinchenko, fyrirliðu Úkraínuliðsins eftir leikinn á móti Íslandi.

„Við verðum að tala um þetta á hverjum degi og kalla upphátt. Það er eina leiðin svo við getum unnið. Þetta var einn af þessum tilfinningamiklu leikjum,“ sagði Zinchenko, sem leikur með Arsenal.

„Þetta er yndisleg tilfinning. Ég er mjög ánægður af því að þarna er annar draumur að rætast. Miklar þakkir til okkar stuðningsfólks þeir hjálpuðu okkur í gegnum erfiðustu tímana í leiknum,“ sagði Zinchenko.

Þjálfarinn Serhiy Rebrov var líka kátur en talaði einnig um stríðið. „Það fljúga eldflaugar á hverjum degi. Okkar markmið var að sýna það að við erum á lífi, enn að berjast á móti Rússunum og að við þurfum stuðning Evrópu,“ sagði Rebrov.

Hann sagði að leikmenn sýnir hafi verið að horfa á fréttir af árásum á Odessa og Kænugarð fyrir leikinn. „Það gerði þá enn reiðari og enn staðráðnari að standa sig inn á vellinum,“ sagði Rebrov.

„Það var mjög erfitt að vera á bekknum í dag. Ég sá hversu erfitt þetta var fyrir strákana. Ég er þeim öllum þakklátur fyrir það að koma með þessa gjöf til úkraínsku þjóðarinnar. Þetta eru erfiðir tímar en um leið mjög mikilvægir,“ sagði Rebrov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×