Fótbolti

„Hann var alltaf mættur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Dagur í baráttunni í leiknum í dag.
Jón Dagur í baráttunni í leiknum í dag. Vísir/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir tap Íslands gegn Úkraínu. Hann sagði tapið það erfiðasta á hans ferli.

„Þetta er eins grátlegt og það gerist, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því eitthvað betur,“ sagði Jón Dagur þegar Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður ræddi við hann eftir leikinn.

Jón Dagur var líflegur í íslenska liðinu. Hann átti hættuleg skot að marki og skapaði hættu á vinstri kantinum með hraða sínum og leikni.

„Mér leið í leiknum eins og það hafi munað litlu,“ sagði Jón Dagur um skotin sín.

„Ég á eftir að sjá þetta aftur en það var eins og hann væri búinn að lesa mig. Hann var alltaf mættur,“ og á Jón Dagur þar við Andriy Lunin markvörðu Úkraínu.

Íslenska liðið komst í 1-0 í fyrri hálfleiknum en Úkraína jafnaði í upphafi seinni hálfleiks og skoraði síðan sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

„Það er erfitt fyrir mig að segja. Fyrsta markið leit „sloppy“ út og það breytti leiknum. Við vorum ennþá inni í þessu í stöðunni 1-1. Síðan kom seinna markið og við vorum búnir að eyða mikilli orku í að halda stöðunni. Það breytti leiknum.“

Íslenska liðið virkaði mjög þreytt á lokamínútunum og sagði Jón Dagur seinna markið hafa drepið leikinn.

Var þetta erfiðasta tapið á hans ferli?

„Hundrað prósent,“ sagði Jón Dagur svekktur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×