Fótbolti

Ráðist að Immobile fyrir framan konu hans og barn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ciro Immobile er markahæsti leikmaður í sögu Lazio.
Ciro Immobile er markahæsti leikmaður í sögu Lazio. EPA-EFE/RICCARDO ANTIMIANI

Ciro Immobile, framherji Lazio, varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum þegar ráðist var að honum fyrir framan konu hans og börn þegar hann var að sækja fjögurra ára son sinn á leikskólann.

Enska götublaðið The Sun greinir frá því að ráðist hafi verið að Immobile þegar framherjinn – sem hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni - sótti sonsinn á leikskólann síðasta föstudag. Var hann bæði kallaður öllum illum nöfnum sem og það var veist að hinum 34 ára Immobile.

Samkvæmt blaðamanninum Zach Lowy íhugar Immobile málsókn. Þá hefur umboðsstofa leikmannsins sagt að fjölmiðlar hafi átt sinn þátt í þessu með því að gefa í skyn að Immobile hafi haft eitthvað að gera með það að Maurizio Sarri tók poka sinn.

Lazio hefur gefið út að félagið í heild standi við bakið á leikmanninum. Forseti félagsins, Claudio Lotito, virðist þó ekki á sama máli. Hann segir atburði sem þessa koma fyrir sig á hverjum degi.

„Ég hef lifað með þessu í 20 ár. Daglegar morðhótanir stílaðar á mig og fjölskyldu mína. Ég er forseti fyrirtækis með 8000 starfsfólk, samt geri ég ekki svona mikið mál úr þessu. Það er allt sem ég mun segja um málið.“

Lazio er sem stendur í 9. sæti Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×