Fótbolti

Hættir eftir 29 ára starf fyrir sama klúbbinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Streich hneigir sig fyrir dómara í Evrópudeild á móti Lens en dómarinn var að gefa honum gult spjald fyrir mótmæli.
Christian Streich hneigir sig fyrir dómara í Evrópudeild á móti Lens en dómarinn var að gefa honum gult spjald fyrir mótmæli. EPA-EFE/ANNA SZILAGYI

Christian Streich hefur tilkynnt það að hann hættir sem þjálfari þýska liðsins SC Freiburg eftir tímabilið.

Hinn 58 ára gamli Streich hóf störf fyrir klúbbinn í suðvestur Þýskalandi árið 1995. Fyrst var hann unglingaliðsþjálfari í sex ár, svo aðstoðarþjálfari í fjögur ár og hann hefur síðan verið aðalþjálfari liðsins frá 2011.

„Ég hef hugsað lengi um þetta og talað við marga. Ég trúi því að eftir 29 ár sé komið að réttum tímapunkti til að gefa eftir pláss fyrir nýja orku, nýtt fólk og nýja möguleika,“ sagði Christian Streich á heimasíðu félagsins.

Streich hefur stýrt liðinu í 711 leikjum síðan að hann tók við.

Liðið er nú í níunda sæti í þýsku bundesligunni þegar átta leikir eru eftir.

Christian Streich fór með liðið aftur upp í Bundesliguna árið 2016 og undanfarin tvö ár hefur liðið komist í Evrópudeildina með því að ná sjötta og fimmta sæti.

Evrópuveturinn endaði í sextán liða úrslitum í síðustu viku þegar liðið tapaði seinni leiknum á móti West Ham 5-0 eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×