Innlent

Ísdrottningin safnar undir­skriftum til að komast á Bessa­staði

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir. vísir

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, einnig þekkt sem Ísdrottningin, er byrjuð að safna meðmælum fyrir forsetaframboð í komandi kosningum. Þetta má sjá á vefnum Ísland.is, en þegar þetta er skrifað eru 25 að safna meðmælum.

Ásdís er fyrirsæta og athafnakona sem þarf vart að kynna fyrir þjóðinni, en hún hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna áratugi hér á Íslandi. Og þá hefur hún einnig gert garðinn frægan í Búlgaríu.

Þann þriðja janúar, örskömmu eftir að Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, tilkynnti að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur, sagðist Ásdís ætla að bjóða sig fram.

Í Facebook-færslu tilkynnti hún um nokkrar breytingar sem hún ætlaði að gera yrði hún kjörin. Þar á meðal var að flytja inn nýjasta Bentley-bílinn og koma tveimur rottweiler-hundum fyrir á Bessastöðum.

Þá sagðist hún ætla að leggja sérstka skatta á fólk og fyrirtæki sem eiga ekki aura sinna tal. Með þeim peningum sagðist hún ætla að byggja fullt af leikskolum, ódýrum eða fríum íbúðum fyrir ungt fólk, aldraða og öryrkja.

Ekki nóg með það heldur sagðist Ásdís ætla að gera Akureyri að höfuðborg Íslands, en því markmiði ætlar hún að ná árið 2050.

Ekki náðist í Ásdísi Rán við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×