Börsungar í átta liða úr­slit eftir sann­færandi sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skoraði fyrsta mark Barcelona í kvöld.
Skoraði fyrsta mark Barcelona í kvöld. EPA-EFE/Alberto Estevez

Barcelona er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir góðan 3-1 sigur á Napolí þegar liðin mættust í Katalóníu í kvöld.

Það var allt í járnum eftir 1-1 jafntefli liðanna á Ítalíu en í kvöld voru það heimamenn í Barcelona sem sýndu sínar bestu hliðar strax í upphafi. Tvö mörk á rétt rúmlega tveimur mínútum sneru einvíginu þeim í hag.

Hinn tvítugi Fermín López kom Barcelona yfir eftir stundarfjórðung með góðu skoti eftir undirbúning Raphinha. Örskömmu síðar átti Raphinha skot í stöng og ekki löngu eftir það var staðan orðin 2-0. Bakvörðurinn João Cancelo með markið eftir að boltinn hrökk til hans inn á teig eftir skot Raphinha.

Raphinha átti frábæran leik í kvöld.EPA-EFE/Siu Wu

Gestirnir voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og eftir hálftímaleik minnkaði Amir Rrahmani muninn með góðu skoti eftir undirbúning Matteo Politano. Þrátt fyrir fín færi á báða bóga var staðan enn 2-1 í hálfleik og Barcelona yfir í einvíginu.

Síðari hálfleikur var svipaður þó svo að gestirnir væru meira með boltann. Þeim tókst ekki að finna glufur á vörn Börsunga og á endanum var það markamaskínan Robert Lewandowski sem gulltryggði farseðilinn í 8-liða úrslit.

Skoraði venju samkvæmt.EPA-EFE/Alberto Estevez

Það gerði Lewandowski með einfaldri afgreiðslu eftir undirbúning Sergi Roberto. Staðan orðin 3-1 og það reyndust lokatölur í kvöld. Barcelona vinnur einvígið því 4-2 og er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira