Erlent

Myndaveitur aftur­kalla myndina af Katrínu og börnunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndin birtist í fjölmiðlum um allan heim en hefur nú verið afturkölluð af myndaveitum eftir að í ljós kom að henni hefur verið breytt.
Myndin birtist í fjölmiðlum um allan heim en hefur nú verið afturkölluð af myndaveitum eftir að í ljós kom að henni hefur verið breytt. Vilhjálmur Bretaprins

Myndaveitur hafa gefið út svokallaða „kill notice“ vegna fyrstu myndarinnar sem breska konungsfjölskyldan birti af Katrínu prinsessu af Wales og börnum hennar eftir að ljóst varð að átt hefur verið við myndina.

„Kill notice“ felur í sér afturköllun myndarinnar en þetta þýðir í raun að myndaveiturnar treysta sér ekki lengur til að selja notendum sínum umrædda mynd, af einhverjum ástæðum.

Associated Press, Agence France-Press og Reuters eru meðal þeirra fréttaveitna sem hafa afturkallað myndina en hún birtist upphaflega á samfélagsmiðlasíðum Katrínar og Vilhjálms Bretarprins.

Var Vilhjálmur sagður höfundur myndarinnar.

Samkvæmt talsmanni AP var myndin dregin til baka eftir að í ljós kom að átt hafði verið við hana og sást það á annarri peysuermi Karlottu prinsessu. Reuters gaf út yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar og var þar vísað til sömu ástæðu en ekki væri vitað hvers vegna átt var við myndina né hver hefði gert það.

Ef vel er að gáð má sjá að það vantar hluta af stroffinu á peysuermi Karlottu. Þarna er eins og átt hafi verið við myndina og ermin máðst út eða færst til.

Fréttaveitan PA hefur ekki dregið myndina til baka en segist hafa leitað skýringa hjá Kensington-höll.

Strangar reglur gilda um meðferð fréttaljósmynda og yfirleitt er aðeins leyfilegt að gera smávægilegar breytingar á til að mynda lit og skerpu til að gera þær greinilegri. Ekki er heimilt að gera „efnislegar“ breytinar á þeim.

Umrædd mynd er fyrsta myndin sem birt er af Katrínu síðan um jólin og eftir að hún gekkst undir aðgerð í Lundúnum á dögunum. Ekki hefur verið greint frá því um hvers konar aðgerð var að ræða og hefur það vakið miklar vangaveltur um heilsu prinsessunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×