Formúla 1

Segir að Ricciardo sé bara í For­múlu út af vin­sældum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Ricciardo brosir oftar en ekki sínu breiðasta.
Daniel Ricciardo brosir oftar en ekki sínu breiðasta. getty/Peter Fox

Fyrrverandi heimsmeistari segir að Daniel Ricciardo sé bara í Formúlu 1 vegna vinsælda hans, ekki vegna ökuhæfileikanna.

„Ricciardo er afurð ímyndar og samfélagsmiðla nútímans,“ sagði Jacques Villeneuve um Ricciardo sem ekur fyrir RB á tímabilinu í Formúlu 1 sem hefst um helgina.

„Þú getur ekki útskýrt feril hans út frá úrslitum. Það er ekki hægt. Þetta er ótrúlegt. Hann getur þakkað Netflix og öllu því fyrir.“

Villeneuve vísaði þar til þáttanna Drive to Survive á Netflix sem hafa notið mikilla vinsælda. Ricciardo er ein af stjörnum þáttanna og Villeneuve segir að vegna þess sé hann enn með vinnu í Formúlu 1.

„Brosið hans, viðhorf fyrir framan myndavélina. Hann eykur virði Formúlu 1 og þess vegna er hann þar,“ sagði Villeneuve.

„Það eru margir ökumenn sem eru jafn snöggir og hann en hafa ekki ímyndina hans. Svo þú gætir þess vegna tekið þann sem er með ímyndina.“

Fyrsta keppni tímabilsins í Formúlu 1 fer fram í Barein á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×