Fótbolti

Dybala skaut Róm­verjum í Meistara­deildar­bar­áttu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paulo Exequiel Dybala skoraði öll þrjú mörk Rómverja í kvöld.
Paulo Exequiel Dybala skoraði öll þrjú mörk Rómverja í kvöld. Paolo Bruno/Getty Images

Roma lagði Torínó 3-2 í eina leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Þetta var fimmti sigur liðsins í síðustu sex leikjum.

José Mourinho var látinn taka poka sinn í Róm þar sem liðið var á hraðri leið niður töfluna. Í kjölfarið tók Daniele De Rossi, goðsögn hjá félaginu, við stjórnartaumunum. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við.

Paulo Dybala heldur áfram að spila eins og engill en hann kom Rómverjum yfir með marki úr vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Duván Zapata jafnaði metin fyrir gestina áður en liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var nýhafinn þegar Dybala bætti við öðru marki sínu og öðru marki Rómverja. Á 69. mínútu fullkomnaði hann svo þrennu sína. Dybala hefur svo sannarlega verið betri en enginn á leiktíðinni en í 18 deildarleikjum hefur hann skorað 11 mörk og gefið 6 stoðsendingar.

Hinn ungi Dean Huijsen setti boltann í eigið net þegar ein mínúta var til loka venjulegs leiktíma en nær komust gestirnir ekki og lokatölur því 3-2 Rómverjum í vil.

Sigurinn lyftir Roma upp í 6. sæti deildarinnar með 44 stig, fjórum minna en Bologna sem situr í 4. sætinu. Torínó er í 10. sæti með 36 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×