Handbolti

Vals­menn sóttu sigur á lokasekúndum leiksins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sigurmark Vals á síðustu sekúndum leiksins
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sigurmark Vals á síðustu sekúndum leiksins Vísir/Pawel

Stjarnan mátti þola eins marks tap, 23-24, er þeir tóku á móti Val í 17. umferð Olís deildar karla. 

Valsmenn byrjuðu leikinn betur en Stjörnumenn unnu sig fljótt inn. Þeir jöfnuðu leikinn 5-5 eftir um fimmtán mínútur og voru svo komnir 9-5 yfir aðeins fimm mínútum síðar. 

Valur minnkaði forystuna niður í tvö mörk fyrir hálfleik og staðan var 10-8 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Tveggja marka forysta Stjörnunnar hélst nokkurn veginn fram að 50. mínútu. Þá loksins tókst Val að jafna leikinn, 19-19. 

Það var hart barist fram á síðustu mínútu, Valsmenn tóku forystuna en Stjörnumenn hleyptu þeim aldrei langt undan. Lokamínútan var æsispennandi, Valur var tveimur mörkum yfir en Benedikt Marinó minnkaði muninn úr horninu og Hergeir Grímsson jafnaði úr hraðaupphlaupi. 

Benedikt Gunnar Óskarsson steig þá upp fyrir sitt lið og tryggði Val sigurinn með góðu skoti utan af velli þegar um fjórar sekúndur voru eftir af leiknum. 

Adam Thorstensen varði frábærlega fyrir Stjörnuna í leiknum, 19 skot af 42. Tandri Már Konráðsson og Hergeir Grímsson voru markahæstir í liðinu með sex mörk hver. 

Valsmegin var Benedikt Gunnar Óskarsson atkvæðamestur með níu mörk og tvær stoðsendingar. 

Valsmenn minnkuðu forskot FH í efsta sæti deildarinnar niður í eitt stig, FH á þó leik til góða. Stjarnan situr áfram í 7. sæti deildarinnar með 15 stig, jafnir Gróttu í 8. sæti og þremur stigum frá Haukum í 6. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×