Fótbolti

Vlahović skoraði tvö og lagði upp í uppbótartímasigri Juventus

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dusan Vlahovic skoraði tvö mörk og gaf svo stoðsendingu þegar Daniele Rugani tryggði Juventus sigur í dag.
Dusan Vlahovic skoraði tvö mörk og gaf svo stoðsendingu þegar Daniele Rugani tryggði Juventus sigur í dag. Jonathan Moscrop/Getty Images

Juventus vann 3-2 gegn Frosinone í 26. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar. Fjögur mörk voru skoruð í fyrri hálfleik, Dusan Vlahović skoraði tvö fyrir Juventus og varnarmaðurinn Daniele Rugani tryggði svo sigurinn í uppbótartíma. 

Heimamenn tóku forystuna strax á 3. mínútu þegar Weston McKennie gaf boltann fyrir markið á Dusan Vlahović sem setti hann í netið. Frosinone komst 1-2 yfir með mörkum frá Walid Cheddira og Marco Brescianini á 14. og 27. mínútu. 

Fimm mínútum síðar var Vlahovic aftur á ferðinni fyrir Juventus og setti boltann í netið eftir aðra fyrirgjöf McKennie. 

Fjögurra marka fyrri hálfleikur lauk jafn og liðin gengu til búningsherbergja. Gestirnir ríghéldu í stigið í seinni hálfleik gegn hættulegum sóknarleik heimamanna. 

Vlahović var allt í öllu, gaf góða fyrirgjöf sem varamaðurinn Kenan Yildiz nýtti ekki og skaut svo sjálfur í stöngina. Markvörður Frosinone, Michele Cerofolini, fékk gult spjald fyrir leiktöf rétt áður. 

Eftir ítrekaðar tilraunir að marki gestanna kom Daniele Rugani boltanum loksins í neitð fyrir Juventus á fimmtu mínútu uppbótartíma, Dusan Vlahović gaf að sjálfsögðu stoðsendinguna. 

Juventus vann sér þarna inn mikilvæg þrjú stig í baráttunni um ítalska deildarmeistaratitilinn. Sex stigum munar milli þeirra og Inter Milan í efsta sætinu, en Inter á vissulega tvo leiki til góða. AC Milan fylgir þeim fast eftir, fimm stigum frá Juventus og með einn leik til góða.  

Frosinone berst í bökkunum, tveimur sætum og þremur stigum frá fallsæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×