Innlent

Loka fyrir heitt vatn á meðan ný hitaveitulögn er tengd

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hjáveitu lögnin fer yfir nýja hraunið.
Hjáveitu lögnin fer yfir nýja hraunið. Vísir/Vilhelm

HS Veitur munu á morgun loka fyrir heitt vatn í Grindavík frá klukkan 09:00 og fram á kvöld á meðan verið er að tengja hjáveitu hitalögn sem kemur í stað þeirrar sem skemmdist í eldgosi þann 14. janúar síðastliðinn.

Í tilkynningu frá HS Veitum kemur fram að eftir að í ljós hafi komið að hitaveitulögn sem liggur undir hrauni frá því í eldgosinu í janúar hafi reynst skemmd hafi HS Veitur unnið að úrbótum í samvinnu við Almannavarnir og verktaka.

Skemmdirnar á lögninni valda því að hátt í helmingur af því heita vatni sem sent er frá orkuverinu í Svartsengi tapast á leiðinni til Grindavíkur. Afleiðingarnar eru þær að erfitt hefur reynst að ná upp þrýstingi í hitaveitunni í bænum.

Gekk ekki að grafa niður að lögninni

Fram kemur í tilkynningunni að í fyrstu hafi verið gerð tilraun til að grafa niður að lögninni í gegnum heitt hraunið þar sem talið sé að lekinn sé. Þegar það tókst ekki var ráðist í vinnu við að koma fyrir hjáveitu hitaveitulögn yfir nýja hraunið.

Segja HS Veitur að framkvæmdirnar hafi gengið vel og er áætlað að tengja lögnina við hitaveituna í Grindavík á morgun, laugardag.

Því verður lokað fyrir heitt vatn í Grindavík frá klukkan 09:00. Lokað verður fyrir heita vatnið þar til framkvæmdum líkur. Gera má ráð fyrir að heitt vatn verði komið aftur á annað kvöld og að lítill þrýstingur verði áfram á hitaveitunni í Grindavík fram á mánudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×