Fótbolti

Stefnir í frá­bært sumar hjá Inter og Sommer á sinn þátt í því

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Yann Sommer hefur átt magnað tímabil.
Yann Sommer hefur átt magnað tímabil. Marco Luzzani/Getty Images

Yann Sommer hefur verið hreint út sagt magnaður í marki Inter á leiktíðinni. Liðið trónir á toppi Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, og fær varla á sig mark ásamt því að vera í fínum málum í einvígi sínu í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Hinn 35 ára gamli Sommer gekk í raðir Inter síðast sumar eftir eitt tímabil í röðum Bayern München. Þar varð hann Þýskalandsmeistari og spilaði töluvert af leikjum í fjarveru Manuel Neuer.

Hafandi spilað í Sviss og Þýskalandi allan sinn feril þá voru efasemdaraddir í kringum vistaskipti markvarðarins til Mílanó á Ítalíu. André Onana var seldur til Manchester United og virtist Inter stökkva á ódýrasta kostinn. Það hefur nú komið í ljós að sá ódýri kostur var án efa besti kosturinn.

Inter lagði Atlético Madríd 1-0 í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Var það í 21. sinn sem Sommer hélt marki sínu á leiktíðinni. Raunar hefur Sommer haldið hreinu sjö sinnum oftar en hann hefur þurft að sækja boltann í net sitt.

Hinn þaulreyndi Svisslendingur hefur aðeins fengið á sig 14 mörk í 32 leikjum í öllum keppnum. Ótrúlegur árangur og ljóst að Inter saknar Onana ekki neitt þar sem liðið er níu stiga forskot og leik til góða á Juventus.

Fyrir áhugasöm má sjá Sommer í beinni þegar Inter heimsækir Lecce á sunnudaginn kemur, 25. febrúr, klukkan 16.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×