Sport

Zuckerberg í horninu á UFC-bardaga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Zuckerberg stendur hér fyrir aftan Volkanovski fyrir bardagann.
Zuckerberg stendur hér fyrir aftan Volkanovski fyrir bardagann. vísir/getty

Eigandi Facebook, Mark Zuckerberg, brá sér í nýtt hlutverk um nýliðna helgi.

Zuckerberg er mikill MMA-aðdáandi og á síðasta ári reyndi hann að fá annan skrilljónamæring, Elon Musk, til þess að berjast við sig í búrinu.

Zuckerberg var mættur á UFC 298 um síðustu helgi og vakti nærvera hans þar eðlilega mikla athygli.

Merab Dvalishvili til að mynda lék sér að Henry Cejudo og talaði við Zuckerberg á meðan. Hann hafði svo mikið fyrir því að gefa Facebook-kónginum fimmu eftir bardaga.

Flestum brá svo í brún er komið var að aðalbardaga kvöldsins á milli fjaðurvigtarmeistarans Alexander Volkanovksi og áskorandans Ilia Topuria.

Þá var Zuckerberg mættur í UFC-gallann, merktur Volkanovski og tók labbið með honum inn í búrið. Hann stóð svo í horninu út bardagann.

Ekki fylgdi Zuckerberg mikil gæfa því Volkanovski tapaði bardaganum og Topuria varð nýr meistari í fjaðurvigtinni.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×