Handbolti

Stjarnan nældi í mikil­væg stig í botn­bar­áttunni

Siggeir Ævarsson skrifar
Eva Björk Davíðsdóttir skoraði 8 mörk í dag og varð markahæst á vellinum
Eva Björk Davíðsdóttir skoraði 8 mörk í dag og varð markahæst á vellinum Vísir/Diego

Stjarnan gerði góða ferð norður yfir heiðar í dag þegar liðið lagði KA/Þór í Olís-deild kvenna 25-27. Afar mikilvæg stig fyrir Stjörnuna í botnbaráttu deildarinnar.

Heimakonur byrjuðu leikinn betur og var nokkuð jafnt á flestum tölum í upphafi leiks. Staðan var 5-5 um miðjan fyrri hálfleik en þá kom frábær kafli hjá Stjörnunni. KA/Þór skoraði aðeins þrjú mörk enn það sem eftir lifði hálfleiks en Stjarnan níu, staðan 8-14 í hálfleik og útlitið ekki bjart fyrir norðankonur.

Það syrti einfaldlega áfram í álinn hjá KA/Þór og munurinn hljóp upp í átta mörk. Þær löguðu þó stöðuna aðeins með 5-2 kafla í lokin en sigur Stjörnunnar var aldrei í mikilli hættu eftir að þær náðu átta marka forskoti.

KA/Þór situr sem fastast á botni deildarinnar, þrátt fyrir að þær Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir hafi báðar rifið skóna af hillunni fyrir lokapsrettinn í deildinni. Vonandi fyrir KA/Þór ná þær að hjálpa liðinu að ná í stig en Katrín skoraði þrjú mörk í dag og Martha tvö. Nathalia Soares Baliana og Isabella Fraga voru markahæstar heimakvenna með fimm mörk hvor.

Hjá Stjörnunni var Eva Björk Davíðsdóttir með átta mörk og þá gerði Darija Zecevic sér lítið fyrir og varði 18 af þeim 42 skotum sem hún fékk á sig í dag, þar af tvö víti.

Stjarnan er eftir þennan sigur í 6. sæti deildarinnar með níu stig, stigi meira en Afturelding og fjórum stigum á undan botnliði KA/Þórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×