Sport

Verð­launa­hafar á ÓL í París fá hluta af Eif­fel­turninum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gull-, silfur- og bronsverðlaunapeningarnir á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Gull-, silfur- og bronsverðlaunapeningarnir á Ólympíuleikunum í París í sumar. @ Paris 2024

Sumarólympíuleikarnir fara fram í París í Frakklandi í sumar og verðlaunapeningarnir á leikunum verða mjög sérstakir. Keppt er að venju um gull, silfur og brons í fjölmörgum íþróttagreinum.

Þetta verður í þriðja skiptið sem Ólympíuleikarnir fara fram í París en þeir voru þar líka fram árið 1900 og 1924. Í sumar verður því liðin heil öld síðan leikarnir voru síðast í höfuðborg Frakklands.

Þekkasta kennileiti Parísarborgar er Eiffelturninn sem er á bakka árinnar Signu. Járnturninn var byggður fyrir heimssýninguna í París árið 1889 og er 324 metrar að hæð.

Skipuleggjendur leikanna ákváðu að verðlaunahafar fá hluta af þessum heimsfræga turni. Lítill málmhluti úr sjálfum Eiffelturninum verður nefnilega grafinn í alla verðlaunapeningana.

Thierry Reboul, hönnunarstjóri leikanna, staðfestir þetta við Reuters fréttastofuna.

„Eiffelturninn er mikilvægt kennileiti fyrir París og allt Frakkland. Þetta er tækifæri fyrir íþróttafólkið að taka lítinn hluta af París með sér heim,“ sagði Thierry Reboul.

Málmhlutinn úr Eiffelturninum verður í miðju allra verðlaunapeninganna. Járnið kemur frá vinnu við endurbætur á turninum og hefur járnið síðan verið geymt á leynistað.

Gríska gyðjan Nike verður aftan á verðlaunapeningnum og með henni verða Acropolis, háborg Aþenuborgar, og Eiffelturninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×