Innlent

Vil­hjálmur „of­boðs­lega svekktur og sorg­mæddur“ yfir viðræðuslitunum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson segir „skilningsleysi Samtaka atvinnulífsins á stöðu íslensks launafólks“ ástæðuna fyrir því að ekki hafi tekist að semja.
Vilhjálmur Birgisson segir „skilningsleysi Samtaka atvinnulífsins á stöðu íslensks launafólks“ ástæðuna fyrir því að ekki hafi tekist að semja. Vísir/Einar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, telur að fyrirkomulagið sem verkalýðshreyfingin viðhafði í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins sé reynt til þrautar.

„Ég er ofboðslega svekktur og sorgmæddur yfir því að þetta hafi endað með þessum hætti,“ sagði Vilhjálmur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Aðspurður um hvar hafi skilið á milli í samningviðræðunum sagði Vilhjálmur ástæðuna vera „skilningsleysi Samtaka atvinnulífsins á stöðu íslensks launafólks“.

Vilhjálmur sagði að þegar samið hafi verið í desember 2022 hafi sá kjarasamningur kostað níutíu milljarða fyrir atvinnulífið á hinum almennavinnumarkaði. Til samanburðar segir hann að boð breiðfylkingarinnar hefði kostað rúma fimmtíu milljarða.

„Þetta átti að vera okkar framlag til þess að það myndi myndast stöðugleiki í íslensku samfélagi, verðbólga færi niður, vextir myndu lækka og allir myndu taka þátt,“ sagði Vilhjálmur sem nefndi í kjölfarið ýmsar verðhækkanir sem hafa orðið á síðustu misserum. 

„Það sem við erum að leggja til að íslenskt launafólk fengi réttrúmar sextán þúsund krónur í vasann.“

Að sögn Vilhjálms var mikil jákvæðni í kringum viðræðurnar þegar breiðfylkingin hafi lagt fram allar sínar kröfur og útskýringar á þeim í lok desember. 

„Síðan þegar farið er að ræða innihald þess sem verið er að biðja um þá byrjar ástandið að súrna mjög hratt,“ sagði hann og vill meina að SA hafi ekki viljað samþykkja að hafa sérstakar varnir í kjarasamningunum fyrir launafólk, sem myndu til dæmis koma inn í myndina myndi verðbólga ekki lækka.

Aðspurður um tilkynningu Samtaka atvinnulífsins frá því í gærkvöldi þar sem því var haldið fram að samtökin væru enn reiðubúin að semja sagði Vilhjálmur hafa lært það eftir áratugi í verkalýðshreyfingunni að samið verði á endanum. 

„En miðað við þessa aðferðarfræði sem við ætluðum að fara þá sýnist mér við vera komin á endastöð með það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×