Innlent

Ríkið þurfi bæði að styðja við Grind­víkinga og samnings­aðila

Heimir Már Pétursson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. 
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.  Vísir

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands segir mikilvægt að ríkið styðji við Grindvíkinga jafnt sem aðra í samfélaginu sem tengjast kjarasamningum. Þá sé brýnt að ná niður vöxtum sem bíti heimili félagsmanna gríðarlega fast.

Fréttamaður náði tali af Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni formanni RSÍ hjá Ríkissáttasemjara í dag. 

Hann segir ekki margt skilja að kröfur fagfélaganna og breiðfylkingarinnar. „Það er auðvitað áherslumunur varðandi útfærslu launahækkunar. En við sitjum hérna í húsi og áttum fund í morgun sem við síðan frestuðum núna til fjögur. Og erum að fara að halda áfram núna í samtalinu.“

Er munurinn sá að þið leggið áherslu á prósentuhækkanir en þau krónutöluhækkanir?

„Við höfum lagt áherslu á að ná einhvers konar blandaðri leið sem mun geta gengið í alla þessa hópa sem eiga eftir að semja líka. Við teljum það mikilvægt.“

Aðspurður hvort hann telji að skrifað verði undir samninga hjá bæði fagfélögunum og breiðfylkingunni á sama tíma segist hann vona að samningar náist sem fyrst. „Og það er auðvitað óskastaða að vinna í því að skrifa undir samninga á sama tíma, eða svipuðum tímapunkti allavega.“

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að samningsaðilar þurfi að taka tillit til þess að ríkissjóður þurfi að standa með Grindavík. Kristján segist sýna því fullan skilning og að mikilvægt sé að ríkið standi við bakið á fólkinu sem nú býr við erfiðar aðstæður. 

„Hins vegar þarf ríkið líka að koma til móts og styðja við aðra í samfélaginu sem tengjast kjarasamningum. Og auðvitað er mjög mikilvægt að svo verði líka.“

Kristján segir félagsmenn hafa lagt mikla áherslu á að ná niður vöxtum. „Af því að vextir eru auðvitað það sem er að bíta heimili landsins, okkar félagsfólk, gríðarlega fast og við teljum að það sé mjög brýnt að ná vöxtum niður og þar af leiðandi verðbólgu í kjölfarið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×