Körfubolti

Skoraði sjö­tíu stig og bætti met Chamberlains

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Joels Embiid fögnuðu honum vel og innilega eftir sjötíu stiga leikinn.
Samherjar Joels Embiid fögnuðu honum vel og innilega eftir sjötíu stiga leikinn. getty/Tim Nwachukwu

Joel Embiid gerði sér lítið fyrir og skoraði sjötíu stig þegar Philadelphia 76ers sigraði San Antonio Spurs, 133-123, í NBA-deildinni í nótt.

Embiid er níundi leikmaðurinn í sögu NBA sem skorar sjötíu stig eða meira í einum leik. Metið á Wilt Chamberlain en hann skoraði hundrað stig í sigri Philadelphia Warriors á New York Knicks, 169-147, 2. mars 1962.

Chamberlain lék með Sixers hluta af ferlinum og átti metið yfir flest stig í einum leik í sögu félagsins (68), allt þar til Embiid sló það í nótt.

„Að vera nefndur í sömu andrá og Wilt er frekar svalt. Þetta var bara frábært kvöld. Ég var í stuði. Eins og ég hef sagt spila ég með óeigingjörnum leikmönnum og þeir héldu áfram að gefa á mig og ég kláraði færin,“ sagði Embiid eftir leikinn.

Auk þess að skora sjötíu stig tók Embiid átján fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Enginn leikmaður í sögu NBA hefur boðið upp á slíka tölfræðilínu í einum og sama leiknum.

Embiid hitti úr 24 af 41 skoti sínu utan af velli í leiknum í nótt og skoraði 21 stig af vítalínunni. Hann komst upp í sjötíu stig þegar hann skoraði með sniðsskoti þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Embiid er stigahæstur í NBA í vetur með 36,1 stig að meðaltali í leik. Hann er því á góðri leið með að verða stigakóngur deildarinnar þriðja árið í röð.

Sixers, sem hefur unnið sex leiki í röð, er í 3. sæti Austurdeildarinnar með 29 sigra og þrettán töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×