Sport

Búist við snjó­komu og brjáluðu veðri þegar Bills taka á móti Steelers

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Buffalo Bills eru ekki óvanir því að leika í snjókomu.
Leikmenn Buffalo Bills eru ekki óvanir því að leika í snjókomu. Vísir/Getty

Veður gæti sett strik í reikninginn í tveimur leikjum NFL-deildarinnar um helgina. Búið er að senda út viðvörðun til stuðningsmanna vegna ofsaveðurs sem framundan er.

Wild Card-helgin í NFL-deildinni er framundan og fer af stað í kvöld með leik Houston Texans og Cleveland Browns. Seinni leikur kvöldsins er  leikur Kansas City Chiefs og Miami Dolphins og sólarstrákarnir frá Flórída þurfa að vera viðbúnir öðruvísi loftslagi í Kansas en þeir eru vanir.

Þegar leikurinn fer fram á morgun er búist við nístingskulda og í frétt Athletic um málið er haft eftir veðurfræðingi AccuWeather að búist sé við átta mínusgráðum í Kansas og vindkælingin gæti orðið allt að þrjátíu gráður í mínus.

Leikur Chiefs og Dolphins er þó ekki eini leikurinn sem veðrið mun hafa áhrif á. Leikur Buffalo Bills og Pittsburgh Steelers fer fram í Buffalo annað kvöld og þar er búist við snjókomu og miklu hvassviðri.

Snjókoman í Buffalo gæti gert áhorfendum erfitt fyrir að komast á Highmark-leikvanginn til að sjá leikinn en í gær biðlaði félagið til stuðningsmanna að mæta á svæðið og hjálpa til við að moka snjó af vellinum. Félagið var tilbúið að greiða hverjum sem kæmi 20 dollara á klukkutímann fyrir snjómoksturinn.

Samkvæmt spám gætu hviður í New York-ríki farið í allt að 30 metra á sekúndu en NFL-deildin er ekki beint þekkt fyrir að fresta leikjum þrátt fyrir válynd veður. Ríkisstjóri New York hefur lýst yfir neyðarástandi í Vesturhluta ríkisins.

Leikur Houston Texans og Cleveland Browns verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 kukkan 21:30 í kvöld og klukkan 01:00 hefst útsending frá leik Kansas City Chiefs og Miami Dolphins.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×