Sport

Barn kveikti í 950 milljón króna villu Tyreek Hill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyreek Hill spilar með Miami Dolphins og líklegast fljótasti leikmaður NFL-deildarinnar. Í það minnsta mjög mjög ofarlega á þeim lista.
Tyreek Hill spilar með Miami Dolphins og líklegast fljótasti leikmaður NFL-deildarinnar. Í það minnsta mjög mjög ofarlega á þeim lista. Getty/Rich Storry

Allir sluppu ómeiddir þegar kviknaði í lúxusvillu stjörnuútherjans Tyreek Hill en hann hefur verið einn af bestu leikmönnum NFL-deildarinnar á þessu tímabili.

Hill var staddur á æfingu með Miami Dolphins en fékk að hætta á henni og drífa sig heim til sín, þegar fréttirnar komu af eldinum.

„Þetta var slys,“ sagði slökkviliðsstjórinn Robert Taylor við The Associated Press. Fjölmiðlar sýndu myndir frá því þegar mikill svartur reykur kom upp úr þaki hússins.

Í ljós hefur komið að upptök eldsins var leikur barns með kveikjara í svefnherbergi sínu.

Slökkviliðsstjórinn sagði ekki frá því hversu gamalt barnið var eða hversu skemmdirnar voru miklar.

Húsið er metið á 5,9 milljónir dollara eða meira en 950 milljónir íslenskra króna.

Hill sást á sjónvarpsmyndum WSVN stöðvarinnar standa fyrir utan heimilið með fjölskyldumeðlimum sínum en hann hefur verið að glíma við meiðsli og var með umbúðir í kringum annan ökklann sinn. Fram undan er stórleikur á móti Buffalo Bills um komandi helgi í síðustu umferð deildarkeppninni.

Húsið er í Southwest Ranches sem er 48 kílómetrum norðvestur af Miami.

Drew Rosenhaus, umboðsmaður Hill, staðfesti að allir úr fjölskyldu Hill hafi sloppið út án meiðsla og þar eru gæludýrin líka meðtalin.

Hann sagði að tekist hafi að halda eldinum staðbundnum í húsinu áður en hann dreifist út um allt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×