Sport

Sektaður um fjöru­tíu milljónir króna fyrir að kasta drykknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Tepper er mjög vel stæður enda er aðeins einn eigandi i NFL-deildinni sem er ríkari en hann.
David Tepper er mjög vel stæður enda er aðeins einn eigandi i NFL-deildinni sem er ríkari en hann. Getty/Cooper Neill

Reiðikast David Tepper, eiganda Carolina Panthers liðsins, varð honum dýrt eftir að NFL-deildin skellti á hann sekt jafnvirði tugmilljóna króna fyrir framkomu hans á gamlársdag.

Tepper kastaði drykknum sínum yfir stuðningsmenn Jacksonville Jaguars liðsins sem voru fyrir neðan heiðursstúkuna. Hann var sektaður um 300 þúsund Bandaríkjadali eða 41,4 milljónir króna.

NFL deildin sagði þetta óásættanlega hegðun og að allt starfsfólk NFL deildarinnar yrði að bera virðingu fyrir stuðningsfólki á öllum stundum.

Tepper sendi líka frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa mikla ástríðu fyrir liði sínu. Hann sæi eftir framkomu sinni.

„Ég hefði átt að láta öryggisverði leikvangsins taka á þessu,“ sagði David Tepper og vísaði til orðaskaks við stuðningsmenn Jacksonville Jaguars. Þeir rúlluðu upp liði Tepper 26-0.

Tepper hefur alveg efni á að borga sektina. Hann er næstríkasti eigandi NFL-deildarinnar og er metinn á meira en tuttugu milljarða Bandaríkjadala eða meira en 2800 milljarða íslenskra króna.

Sektin er eitt prósent af einu prósenti auðæfa hans. Fyrir meðalmanninn í Bandaríkjunum jafngildir sektin innan við tveimur dollurum, um 245 íslenskum krónum.

Tepper keypti Carolina Panthers liðið árið 2018 en lítið hefur gengið hjá félaginu síðan og liðið er nú með lélegasta árangurinn í deildinni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×