Erlent

Trump ekki kjör­gengur í Maine

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump verður hvorki á kjörseðlum í Maine né Colorado, að óbreyttu.
Trump verður hvorki á kjörseðlum í Maine né Colorado, að óbreyttu. AP/Geoff Stellfox

Innanríkisráðherra Maine í Bandaríkjunum, sem meðal annars hefur umsjón með framkvæmd kosninga í ríkinu, hefur ákveðið að Donald Trump sé ekki kjörgengur vegna framgöngu hans þegar ráðist var inn í þinghúsið í Washington árið 2021.

Þetta þýðir að Trump verður að óbreyttu ekki á kjörseðlum í ríkinu í forsetakosningunum á næsta ári.

Shenna Bellows greindi frá ákvörðun sinni í gær en hún tók málið til athugunar eftir að kæra var lögð fram af hópi íbúa. Sagðist hún ekki hafa komist að niðurstöðunni af léttúð; um væri að ræða fordæmalausa ákvörðun en það væri hins vegar einnig fordæmalaust að sitjandi forseti hvetji til uppreisnar.

Maine er annað ríkið á eftir Colorado sem kemst að þeirri niðurstöðu að Trump sé ekki kjörgengur samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna. Ákvörðun Bellows fer nú fyrir dómstóla og talsmenn Trump hafa heitið því að berjast með öllum ráðum til að fá henni snúið.

Lagaspekingar hafa fært rök fyrir því að Trump sé ekki kjörgengur þar sem stjórnarskráin kveður á um að þeir séu ekki hæfir til að gegna embætti sem hafa tekið þátt í uppreisn. Ákvæðinu var upphaflega ætlað að tryggja að Suðurríkjasambandssinnar kæmust ekki aftur til valda.

Tilraunum til að halda Trump af kjörseðlinum í Minnesota, New Hampshire og Michigan hafa mistekist en þess ber að geta að fjölmargir andstæðingar Trump telja óvarlegt að fara þessa leið til að freista þess að halda honum frá Hvíta húsinu.

Best sé að sigra hann í kosningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×