Innlent

„Munum sitja hér þangað til við sjáum fjöl­skyldur okkar yfir­gefa Gasa“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hópurinn hefur komið sér fyrir fyrir utan Alþingishúsið.
Hópurinn hefur komið sér fyrir fyrir utan Alþingishúsið. Vísir/Lovísa

Hópur Palestínumanna á Íslandi sem vill sameinast fjölskyldum sínum sem enn eru á Gasa hefur reist tjöld á Austurvelli fyrir utan Alþingi. Í tilkynningu segjast þau ætla að vera þar þar til þau hafa sameinast ástvinum sínum.

Tilkynningin var birt á síðu No Borders Iceland. Þar segist hópurinn hafa fengið umsókn sína samþykkta um vernd frá íslenska ríkinu. Síðan hafi þau sótt um sameiningu við fjölskyldu sína en síðan beðið í eitt og hálft ár án þess að fá svör.

„Palestínufólk er ekki einungis að finna langt í burtu, við erum mörg sem búum og vinnum hér á Íslandi. Í morgun reistu nokkur okkar, sem enn hafa líkamlegan og andlegan styrk til, tjöld fyrir utan Alþingi í von um að krafa okkar um fjölskyldusameiningu hljómi hærra og skýrar.“

Án matar, vatns og lífsnauðsynja

Hópurinn segir að síðustu áttatíu daga hafi hann haft samband við allar mannréttinda-og ríkisstofnanir hérlendis til að krefjast brottflutnings fjölskyldna þeirra sem fastar séu á Gasa.

„Þar sem sprengjum rignir yfir þau, ein og yfirgefin. Þau eru án matar, án vatns og annarra lífsnauðsynja. Við getum ekki sofið inni á hlýju heimili á meðan fjölskyldur okkar eru heimilislausar, við getum ekki borðað og drukkið á meðan þau svelta.“

Hópurinn minnir á að það sé ekki vegna skorts á peningum sem fjölskyldur þeirra hafi ekki aðgang að þessum nauðsynjum. Það sé vegna þess að ekkert vatn og engan mat sé að finna lengur á Gasa. Þau bjóða öllum þeim sem áhuga hafa á því að standa með sér á Austurvelli.

„Við munum sitja hér þangað til að við sjáum fjölskyldur okkar yfirgefa Gaza. Öðrum löndum hefur tekist að ná fólki útaf Gaza, jafnvel löndum sem að eru með lítil diplómatísk tengsl við Ísrael og Palestínu hefur tekist það. Við viljum fá fjölskyldur okkar í öruggt skjól.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×