Fótbolti

Vla­ho­vic tryggði Juventus mikil­vægan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kenan Yildis fagnar marki sínu í leiknum í dag.
Kenan Yildis fagnar marki sínu í leiknum í dag. Vísir/Getty

Juventus minnkaði forskot Inter á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar í eitt stig eftir sigur á Frosinone á útiveli. Sigurmarkið kom undir lok leiksins.

Fyrir leikinn í dag var Inter með fjögurra stiga forskot á Juventus á toppi deildarinnar en bæði liðin hafa aðeins tapað einum leik í deildinni á tímabilinu. 

Kenan Yildiz opnaði markareikninginn í leiknum í dag þegar hann kom Juventus yfir strax á 12. mínútu leiksins með frábæru marki en hann fór framhjá þremur varnarmönnum heimamanna áður en hann þrumaði boltanum í nærhornið. 

Staðan í hálfleik var 1-0 en Jaime Baez jafnaði metin fyrir Frosinone í upphafi síðari hálfleiks. Hann fékk þá stórkostlega sendingu frá Ilario Monterisi innfyrir vörn Juve og skoraði framhjá Wojciech Szczesny í markinu.

Það leit út fyrir að Juventus væri að fara að gera sitt sjötta jafntefli í Serie A á tímabilinu en á 81. mínútu kom Dusan Vlahovic gestunum í 2-1 með frábæru skallamarki eftir fyrirgjöf Weston McKennie.

Markið dugði Juventus til að tryggja sér 2-1 sigur og liðið er nú aðeins einu stigi á eftir Inter sem er á toppi deildarinnar. Inter á leik gegn Lecce á heimavelli síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×