Fótbolti

Besiktas segist vera að ræða við Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
José Mourinho starfaði síðast á Ítalíu.
José Mourinho starfaði síðast á Ítalíu. EPA-EFE/FABIO FRUSTACI

Allt lítur út fyrir að næsta starf knattspyrnustjórans José Mourinho verði í Tyrklandi.

Huseyin Yucel, varaforseti tyrkneska félagsins Besiktas, segir að félagið sé í viðræðum við bæði Mourinho og argentínska knattspyrnumanninn Ángel Di María. ESPN segir frá.

Hinn 61 árs gamli Mourinho hefur verið atvinnulaus síðan að Roma rak hann í janúar.

Besiktas var með annan Portúgala í starfi en Fernando Santos þurfti að taka pokann sinn i apríl. Unglingaliðsþjálfarinn Halim Okta kláraði tímabilið.

„Ég hitti José Mourinho í Istanbul fyrir um mánuði síðan og hann hlustaði á okkar tilboð,“ sagði Huseyin Yucel við sjónvarpsstöðina TGRT Haber.

„Hann sagðist þá myndi hugsa um það og gefa okkur síðan svar. Hann hafði síðan aftur samband og vildi hitta okkar aftur á Ítalíu í næstu viku,“ sagði Yucel.

„Við höfum orðið við fjárhagslegum kröfum Mourinho. Við erum tilbúnir að borga launin hans. Ef við náum samkomulagi við Mourinho þá mælum við með því að hann taki Ricardo Quaresma inn í þjálfarateymið sitt,“ sagði Yucel.

Besiktas er í fimmta sæti tyrknesku deildarinnar en er komið í bikarúrslitaleikinn þar sem liðið mætir Trabzonspor á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×