Erlent

„Troðið í ykkur klökum og haldið hel­vítis kjafti“

Samúel Karl Ólason skrifar
Izhar Cohen, söngvari, vandaði Íslendingum ekki kveðjurnar í nýlegu viðtali.
Izhar Cohen, söngvari, vandaði Íslendingum ekki kveðjurnar í nýlegu viðtali.

Izhar Cohen, sem vann Eurovision fyrir hönd Ísrael árið 1978, segir Ísraela vita að Íslendingum sé illa við þá. Íslendingar hafi sýnt það þegar söngvakeppnin fór fram í Tel Aviv og íslenski hópurinn hafi umgengst öfgafulla Palestínumenn og stutt hryðjuverkastarfsemi gegn Ísraelum.

Þetta er meðal þess sem Cohen sagði í nýlegu viðtali á Channel 13 í Ísrael. Var þar verið að ræða um ákall margra hér á Íslandi eftir því að Ísraelum verði meinað að taka þátt í Eurovision á næsta ári, annars taki Ísland ekki þátt.

Er það vegna átakanna á Gasaströndinni, sem kostað hafa yfir tuttugu þúsund Palestínumenn lífið.

„Þið berjist fyrir mannréttindum allra í heiminum, nema fyrir mannréttindum Ísraela, fyrir mannréttindum gyðinga,“ sagði Cohen. „Þess vegna eru þið gyðingahatarar.“

Ríkisútvarpið sagði áður frá ummælum Cohen.

Cohen sagði Íslendinga vita ekkert um Ísrael og Ísraela. Við hefðum innbyrt mikið af lygum og áróðri Palestínumanna. Sagði hann Íslendinga ekki gera neitt annað en að öskra og öskra.

Þá lagði hann til að í stað þess að bera pólitískar skoðanir okkar inn á svið söngvakeppninnar ættu Íslendingar að mæta með gott lag og vinna keppnina.

„Þannig munum við eftir ykkur. Hvar eru þið? Einhversstaðar við norðurpólinn, er það ekki? Eitthvað með ís og eld. Annars getið þið bara haldið áfram að gelta.“

Cohen sagði að Ísraelar yrðu áfram í Ísrael í fimmtíu þúsund ár. sama hvað Íslendingum finnist um það.

„Það er mikið af klaka á Íslandi, er það ekki? Troðið í ykkur klökum og haldið helvítis kjafti! Ísrael tólf stig og Ísland núll,“ sagði Cohen við góðar undirtektir þáttastjórnendans.

Hér að neðan má sjá lag Cohen frá 1978.


Tengdar fréttir

Tuttugu þúsund sögð látin á Gasa

Tuttugu þúsund manns eru látin á Gasa vegna árása Ísraela að sögn heilbrigðisyfirvalda þar. Ísraelsmenn hafa sagt að þeir muni ekki láta af árásum sínum.

Varar við hruni hjálpar­starfs á Gasa­ströndinni

Yfirmaður Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) segir ástandið fyrir íbúa Gasastrandarinnar vera sambærilegt því að búa í helvíti. UNRWA ber ábyrgð á því að dreifa neyðaraðstoð til íbúa Gasastrandarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×