Erlent

Kristi­legir demó­kratar vilja senda hælis­leit­endur til þriðja ríkis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Spahn segir markmiðið meðal annars að draga úr hættulegum fólksflutningum um Miðjarðarhaf.
Spahn segir markmiðið meðal annars að draga úr hættulegum fólksflutningum um Miðjarðarhaf. epa/Clemens Bilan

Kristilegi demókrataflokkurinn í Þýskalandi hyggst vinna aftur stuðning kjósenda með afdráttarlausum aðgerðum í útlendingamálum, sem munu meðal annars felast í því að senda hælisleitendur til þriðja ríkis á meðan unnið er úr umsóknum þeirra.

Um er að ræða sama úrræði og stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa unnið að en hefur verið harðlega gagnrýnt af ýmsum mannréttindasamtökum og -sérfræðingum. Umrædd þriðju ríki sem nefnd hafa verið til sögunnar eru Rúanda og Ghana og Moldavía og Georgía.

Jens Spahn, varaþingflokksformaður Kristilega demókrataflokksins, sagði um helgina að flokkurinn væri fylgjandi því að senda hælisleitendur til þriðja ríkis á meðan unnið væri úr umsóknum þeirra. Þetta myndi verða til þess að draga verulega úr umsóknum.

Spahn kallaði umrædd ríki „örugga höfn“ þar sem skilyrði flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna yrðu uppfyllt en gagnrýnendur segja enga leið til að tryggja að umrædd ríki færu að lögum og viðmiðum Evrópusambandsins um rétt flóttafólks.

Pólitískir andstæðingar Kristilega demókrataflokksins hafa sakað flokkinn um popúlisma og segja raunverulegra lausna sé þörf til að leysa flóttamannavandann.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur lagt áherslu á að draga úr fjölda hælisumsókna með því að setja þak á bætur, hraða úrvinnslu umsókna og setja strangari skilyrði til að draga úr fjölda samþykktra umsókna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×